Aguero kom City til bjargar gegn Swansea

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Aguero reyndist hetjan í kvöld
Aguero reyndist hetjan í kvöld vísir/getty
Manchester City slapp með skrekkinn gegn B-deildarliði Swansea City í ensku bikarkeppninni í kvöld þökk sé Sergio Aguero.

Fyrirfram bjuggust flestir við því að Englandsmeistararnir ættu frekar auðvelt síðdegi fyrir höndum en svo varð alls ekki.

Á 19. mínútu leiksins fékk Connor Roberts vítaspyrnu þegar Fabian Delph felldi hann innan vítateigs. Matt Grimes hamraði vítaspyrnuna í netið og kom Swansea yfir.

Leikmenn Manchester City duttu aðeins úr takti við markið og heimamenn nýttu sér það. Á 28. mínútu skoraði Bersant Celina eftir virkilega vel útfærða sókn heimamanna með laglegu skoti í markhornið.

Staðan í hálfleik var 2-0 fyrir Swansea og stuðningsmenn heimamanna gátu leyft sér að vonast eftir því ótrúlega.

Manchester City lá á marki Svananna í seinni hálfleik og á 69. mínútu komu þeir boltanum loks í netið eftir klafs í teignum. Boltinn féll fyrir Bernado Silva sem skaut boltanum laglega utanfótar í markið.

Á 77. mínútu fékk Manchester City vítaspyrnu. Raheem Sterling féll við í teignum, hann féll kannski nokkuð auðveldlega en það var snerting frá Cameron Carter-Vickers og vítaspyrna dæmd. Sergio Aguero fór á punktinn, skaut í stöngina en boltinn hrökk af bakinu á Kristoffer Nordfeldt og í netið.

Ólán fyrir Nordfeldt sem átti annars frábæran dag í marki Swansea. Hann náði hins vegar ekki að koma í veg fyrir að Sergio Aguero tryggði City sigurinn með skalla á 88. mínútu.

Endursýningar sýndu að Aguero var líklega rangstæður en myndbandsdómgæslutæknin var ekki í notkun í þessum leik. Hún hefur bara verið notuð á úrvalsdeildarvöllum í keppninni í ár.

Lokatölur urðu 3-2 fyrir Manchester City sem bókaði sér þar með sæti í undanúrslitunum. Englandsmeistararnir réðu lögum og lofum inni á vellinum en leikmenn Swansea geta verið svekktir miðað við hvernig leikurinn þróaðist og baráttuna sem þeir sýndu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira