Úlfarnir hentu Manchester United úr bikarnum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. Getty/Chloe Knott
Úlfarnir slógu Manchester United út úr ensku bikarkeppninni í fótbolta og eru komnir í undanúrslitin.

Leikurinn fór afskaplega rólega af stað. Bæði lið áttu skot í átt að marki en eina stóra, dauðafærið í fyrri hálfleik kom á 42. mínútu.

Diogo Jota slapp einn í gegn eftir frábæra sendingu frá Ruben Neves en Sergio Romero nýtti tækifærið sem hann fékk í marki United og varði vel frá Jota.

Marcus Rashford byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og átti sprett í átt að marki en fleira gerði lið United varla í seinni hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var mjög flatur hjá United og lítið í gangi sóknarlega. Úlfarnir voru mjög skipulagðir í vörninni og nýttu sínar sóknir vel til þess að ógna marki United.

Romero átti svakalega vörslu frá Raul Jimenez á 54. mínútu en hann réði ekki við skot hans úr teignum á 70. mínútu og Jimenez kom Úlfunum yfir.

Sex mínútum seinna gerði Luke Shaw sig sekan um afar slakan varnarleik, Diogo Jota slapp inn fyrir og í þetta skipti klikkaði hann ekki.

Úlfarnir komnir tveimur mörkum yfir og ekkert sem United hafði sýnt sóknarlega hingað til í leiknum benti til þess að gestirnir myndu ná að svara.

Á 82. mínútu tók myndbandsdómgæslan sviðsljósið. Martin Atkinson ákvað að dæma beint rautt spjald á Victor Lindelöf fyrir tæklingu á Diogo Jota en það var heldur harður dómur og myndbandsdómarinn ákvað að afturkalla þá ákvörðun, gult spjald var næg refsing.

Í uppbótartíma náði United loks að skapa sér færi, eitt af örfáum í leiknum. Luke Shaw átti góðan sprett og setti boltann fyrir á Marcus Rashford sem kláraði í netið. Það dugði þó ekki til og 2-1 tap raunin fyrir United.

Frábært tímabil Úlfanna heldur áfram, þeir eru með sæti í undanúrslitunum í bikarkeppninni líkt og Manchester City, Watford og annað hvort Brighton eða Millwall.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira