Erlent

Minnst einn sagður látinn í skotárás í Hollandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikill viðbúnaður er á vettvangi.
Mikill viðbúnaður er á vettvangi. EPA/ROBIN VAN LONKHUIJSEN
Lögreglan í Utrecht í Hollandi segir einn vera látinn og minnst sex vera særða eftir skotárás í sporvagni. Árásarmaðurinn er á flótta undan lögreglu eftir að hann hóf skothríð um klukkan 9:45 að íslenskum tíma (10:45 úti).

Mikill viðbúnaður er í Utrecht og hafa sjúkraþyrlur verið sendar á vettvang. Lögreglan útilokar ekki að um hryðjuverk sé að ræða og viðbúnaðarstig hefur verið aukið á meðan árásarmannsins er leitað. 

Öryggi hefur verið bætt á flugvöllum, skólum og öðrum mikilvægum stöðum í Hollandi. Þá hafa yfirvöld beðið forsvarsmenn moska í Utrecht að hafa lokað í dag, samkvæmt fjölmiðlum í Hollandi.

Lögreglan er með mikinn viðbúnað nærri torginu þar sem skotárásin átti sér stað og er talið mögulegt að árásarmaðurinn sé þar inni. Þungvopnaðir lögregluþjónar virðast sitja um húsið. Þá kom fram á blaðamannafundi í Haag að skot­um hefði verið hleypt af á nokkr­um stöðum í borginni í dag.

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, hefur afboðað fundi sína í dag. Þegar BNR náði tali af honum sagðist hann hafa verulegar áhyggjur af ástandinu. 

Pieter-Jaap Aalbersberg, yfirmaður hryðjuverkavarna í Hollandi, segir sérstök neyðarteymi hafa verið virkjuð vegna skotárásarinnar. Ekki sé hægt að útiloka að um hryðjuverk hafi verið að ræða og viðbúnaðarstig á svæðinu hafi verið aukið. Árásarmaðurinn er sagður hafa flúið á rauðum bíl.

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hvetur Íslendinga sem staddir eru í Utrecht til að hafa samband ef þeir þurfa á aðstoð að halda. Þá eru aðrir hvattir til að láta aðstandendur vita eða gera grein fyrir sér á samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×