Enski boltinn

Pochettino segir Barcelona einu skrefi ofar en United

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pochettino eftir sigurinn á Dortmund í 16-liða úrslitunum.
Pochettino eftir sigurinn á Dortmund í 16-liða úrslitunum. vísir/getty
Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham, segir að Barcelona sé líklegasta liðið til þess að vinna Meistaradeildina af þeim liðum sem eftir eru.

Tottenham var ekki við keppni í enska bikarnum um helgina og skellti liðið því sér til Spánar í æfingarferð, nánar tiltekið til Barcelona, þar sem rætt var við stjórann, Pochettino.

„Ef það er eitt lið sem er líklegt til þess að vinna Meistaradeildina þá er það Barcelona. Ernesto Valverde er að gera frábært starf. Þeir eru með ótrúlega leikmenn og svo Lionel Messi,“ sagði Pochettino.

„Síðan ertu með lið eins og Manchester City og Juventus sem munu alltaf eiga möguleika á að vinna því liðið þeirra er byggt þannig upp. Það er svo alltaf pláss fyrir óvænt úrslit og vonandi getur Tottenham verið þetta óvænta.“

Börsungar drógust gegn Manchester United í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar og þrátt fyrir að Pochettino segi að United sé með hörkulið segir hann jafnframt að Börsungar séu skrefi framar.

„Ég held að Manchester United liðið sem hefur verið byggt upp síðustu ár sé líklegt til þess að vinna stóra hluti en að vinna stórar keppnir eins og Meistaradeildina og ensku úrvalsdeildina ræðst á litlum hlutum.“

„Auðvitað eru þeir með leikmenn sem geta gert Barcelona erfitt fyrir en ég held að Barcelona sé einu skrefi fyrir ofan Manchester United,“ sagði Argentínumaðurinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×