Viðskipti innlent

Annar framkvæmdastjóri yfirgefur Sýn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hrönn Sveinsdóttir hafði gegnt stöðu sinni frá árinu 2005.
Hrönn Sveinsdóttir hafði gegnt stöðu sinni frá árinu 2005. Sýn
Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Sýnar, hefur ákveðið að láta af störfum sem fjármálastjóri fyrirtækisins frá og með 1. júní 2019.

Í tilkynningu frá Sýn er þess getið að Hrönn hafi gegnt umræddri stöðu frá árinu 2005 og að hún hafi borið ábyrgð á fjármálum, mannauðsmálum og miðlægum rekstri félagsins.

Auk þess hafi hún „tekið þátt í að leiða félagið í gegnum miklar breytingar, þ.m.t. skráningu í Kauphöll, nú nýverið samruna við 365 sem og innleiðingu á „BESTA“ starfsmannaumhverfi að Suðurlandsbraut 8-10, hugmyndafræði sem Vodafone Group hefur innleitt víðsvegar um heiminn.“

Hrönn bætist þar í hóp lykilstjórnenda sem yfirgefið hafa Sýn á síðustu mánuðum. Má þar t.a.m. nefna þau Björn Víglundsson, framkvæmdarstjóra Miðla, og Ragnheiði Hauksdóttur sem leitt hafði einstaklingssvið Sýnar. Þau létu af störfum sínum fyrir fyrirtækið um miðjan janúar síðastliðinn.

Þá ákvað forstjóri Sýnar, Stefán Sigurðsson, jafnframt að róa á önnur mið. Greint var frá brotthvarfi hans í lok febrúar. Stjórn félagsins fól Heiðari Guðjónssyni, stjórnarformanni Sýnar, að annast í auknum mæli skipulag félagsins og gæta þess að rekstur þess sé í réttu og góðu horfi fram að ráðningu nýs forstjóra.

Vísir er í eigu Sýnar hf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×