Viðskipti innlent

Forstjóri Icelandair tjáir sig ekki um það hvort Skúli hafi leitað til hans aftur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair Group.
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair Group. Vísir/Jói K
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair vill ekki tjá sig um það hvort Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi Wow air, hafi leitað til hans til að kanna aðkomu Icelandair að Wow air vegna erfiðleika í viðræðum síðarnefnda félagsins við fjárfestingafélagið Indigo Partners.

Í fréttum sem birtust á Túrista, og svo Mbl í kvöld, er haft eftir heimildum að þungur róður í viðræðum Skúla og Indigo Partners hafi knúið Skúla til að leita til Boga. Erindið hafi verið að kanna flöt á aðkomu Icelandair að Wow air.

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air.Vísir/Friðrik Þór Halldórsson
Ekkert hafi orðið af slíkum viðræðum á milli Boga og Skúla. Þetta hefði þá verið í annað sinn sem félögin hefðu hafið viðræður en eins og kunnugt er féll Icelandair frá kaupum á Wow air í lok nóvember í fyrra.

„Ég ætla ekkert að tjá mig um þetta mál,“ segir Bogi Nils í samtali við Vísi í kvöld.

Í gærkvöldi sendi WOW Air frá sér tilkynningu þess efnis að ekki hefði náðst að ganga frá endanlegu samkomulagi um kaup Indigo á stórum hlut í WOW Air. Viðræðum verður þó framhaldið og er vonast til að þeim verði lokið fyrir föstudaginn 29. mars.

Þá hefur gengi hlutabréfa í Icelandair hækkað síðustu daga. Forstöðumaður greiningardeildar Capacent sagði í samtali við Vísi í dag að þegar litið sé til gengisstyrkingar Icelandair virðist hlutabréfamarkaðurinn líta svo á að samningaviðræður WOW Air og Indigo Partners gangi illa.


Tengdar fréttir

Skúli segist alltaf vera vongóður

Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi Wow air, segist alltaf vera vongóður aðspurður um hvort takist að sigla kaupum Indigo Partners á stórum hlut í Wow Air í heimahöfn fyrr en síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×