Handbolti

Vonar að Basti mæti ekki í stuttbuxunum í Höllina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sebastian Alexandersson í stuttbuxunum.
Sebastian Alexandersson í stuttbuxunum. Mynd/S2 Sport
Stefán Arnarson, þjálfari kvennaliðs Fram, stóðst ekki mátið og skaut aðeins á kollega sinn á blaðamannafundi fyrir bikarúrslitahelgina í handboltanum.

Stefán Arnarson og stelpurnar hans í Fram mæta Stjörnunni í undanúrslitum Coca Cola bikars karla en þjálfari Stjörnunnar er Sebastian Alexandersson.

Sebastian Alexandersson vakti mikla athygli á dögunum þegar hann spilaði í Olís deild karla en hann verður fimmtugur seinna á þessu ári.

Þegar Stefán fékk orðið á blaðamannafundinum í dag þá var það fyrsta sem hann gerði að skjóta á Sebastian Alexandersson sem spilaði umræddan leik á stuttbuxum.

„Ég vona í fyrsta lagi að Basti verði ekki í stuttbuxum,“ sagði Stefán. Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Framliðsins, átti í framhaldinu bágt með sig við hlið þjálfarans og Sebastian sjálfur brosti.

Stefán Arnarson talaði síðan Stjörnuliðið upp í framhaldinu. „Þær eru með mjög gott varnarlið og leikmenn sem eru með mikla handboltagreind og góða leikmenn í flestum stöðum. Þær gerðu jafntefli við Val, unnu Hauka í bikarnum og áttu að vinna okkur um daginn. Þær eru á mjög góðu skriði í dag,“ sagði Stefán.

Það má sjá allan blaðamannafundinn hér fyrir neðan.



Stjarnan tekur á móti Fram klukkan 20.15 á fimmtudaginn en á undan spila Valur og ÍBV. Sigurvegararnir mætast síðan í bikarúrslitaleiknum.

Sebastian Alexandersson og félagar í Seinni bylgjunni litu á leiki hans með ÍR sem ágæta vettvangsrannsókn fyrir Seinni bylgjuna. Sebastian gagnrýndi sjálfan sig og formið í viðtali eftir leikinn eins og sjá má hér fyrir neðan.



Klippa: Seinni bylgjan: Basti svarar fyrir leik sinn


Undanúrslit Coca Cola bikars kvenna fara fram á fimmtudagskvöldið en undanúrslit í Coca Cola bikar karla á föstudaginn. Bikarúrslitaleikirnir verða síðan báðir á laugardaginn




Fleiri fréttir

Sjá meira


×