Erlent

Líklegt að Brexit verði frestað hafni þingmenn samningi

Kjartan Kjartansson skrifar
Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands.
Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands. Vísir/EPA
Bresk stjórnvöld þurfa líklega að fresta fyrirhugaðri útgöngu úr Evrópusambandinu felli þingmenn útgöngusamning Theresu May forsætisráðherra öðru sinni. Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands, segist viss um að þingið ákveði að ganga ekki úr sambandinu án útgöngusamnings.

Samningi May var hafnað með afgerandi meirihluta í þinginu í janúar en til stendur að greiða atkvæði aftur í næstu viku. Aðeins tuttugu og tveir dagar eru þar til Bretar ætla sér að ganga úr sambandinu. May hefur sagt að þingið verði látið greiða atkvæði um hvort það vilji ganga úr án samnings ef samningur hennar verður felldur.

„Þingið mun ekki greiða atkvæði með því að ganga úr Evrópusambandinu án samnings. Ég hef mikla trú á því,“ sagði Hammond í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC.

Svokölluð baktrygging um landamæri á Írlandi er það þrætumál þar sem hnífurinn stendur helst í kúnni. Í samningi May er gert ráð fyrir að Norður-Írland verði áfram hluti af tollabandalagi Evrópu þar til samið verður sérstaklega um fyrirkomulag til frambúðar til að ekki þurfi að setja upp hefðbundið landamæra- og tollaeftirlit á mörkum Írlands og Norður-Írlands.

Fulltrúar Evrópusambandsins hafa hvatt bresku ríkisstjórnina til að leggja fram nýjar tillögur að samningi innan næstu tveggja sólahringa til að höggva á hnútinn. Þeir segja tilbúnir að leggja dag við nótt til að ná samkomulagi um helgina ef viðunandi tillögur berist frá May á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×