Erlent

Hélt að eiginmaðurinn væri að halda framhjá og drekkti dóttur sinni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bethan Colebourn var þriggja ára þegar hún lést.
Bethan Colebourn var þriggja ára þegar hún lést. Mynd/lögreglan í Hampshire
Bresk kona, sem er ákærð fyrir að hafa drekkt þriggja ára dóttur sinni í baðkari árið 2017, hélt að eiginmaður sinn og faðir barnsins ætti í ástarsambandi við samstarfskonu sína. Þetta kom fram við meðferð máls gegn konunni í Hampshire í suðurhluta Bretlands.

Konan, hin 36 ára Claire Colebourn, neitar sök í málinu. Hún er sögð hafa reynt að fremja sjálfsvíg eftir að hún drekkti dóttur sinni, Bethan, á heimili hjónanna í breska bænum Fordingbridge. Claire leitaði jafnframt að upplýsingum um drukknun og kirkjugarða á netinu í aðdraganda morðsins.

Þá er haft eftir lögmanni ákæruvaldsins, Kerry Maylin, að Colebourn-hjónin hafi verið saman í sextán ár en samband þeirra hafi versnað eftir að dóttir þeirra fæddist. Þá hafi Claire þróað með sér ranghugmyndir um að eiginmaður sinn, Michael, væri að halda fram hjá sér með konu sem starfaði með honum. Michael var jafnframt fluttur út af heimilinu þegar Claire myrti dóttur þeirra.

Einnig er greint frá því að Claire hafi sent lögreglu bréf þar sem hún rakti vandræði í sambandi sínu og eiginmannsins. Þá sendi hún móður sinni einnig bréf þar sem hún sagðist elska hana og bað jafnframt um að vera jörðuð við hlið dóttur sinnar. Talið er líklegt að Claire hafi þegar verið búin að drekkja dóttur sinni áður en hún ritaði bréfin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×