Enski boltinn

Mourinho hrósar Solskjær fyrir „magnaðan“ sigur í París

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho verður í sjónvarpinu fram á sumar en fer svo væntanlega til Madrídar.
José Mourinho verður í sjónvarpinu fram á sumar en fer svo væntanlega til Madrídar. vísir/getty
José Mourinho, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, kom skemmtilega á óvart í nýja þættinum sínum On The Touchline á rússnesku sjónvarpsstöðinni RT og hrósaði Ole Gunnar Solskjær fyrir sigurinn magnaða gegn Paris Saint-Germain í Meistaradeildinni í vikunni.

Solskjær og lærisveinar hans urðu saman fyrsta liðið til að komast áfram í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar eftir að tapa 2-0 á heimavelli í fyrri leik en Marcus Rashford skoraði úr VAR-vítaspyrnu í uppbótartíma og skaut United áfram.

„Þetta var hárréttur dómur. Þetta var klárt víti því boltinn fór í höndina á leikmanninum og hann stóð inn í teig. Þetta er annars víti sem ég held að enginn dómari hefði dæmt svona seint í leiknum,“ segir Mourinho um vítaspyrnuna.

Sigur United kom í kjölfarið á öðrum ótrúlegum úrslitum kvöldið áður þar sem að Ajax tók annað fyrrverandi félag Mourinho, Real Madrid, og pakkaði því saman á Bernabéu í Madríd.

„Þegar horft er á frammistöðu beggja liða verður að segja að þessi úrslit þeirra eru hreint mögnuð. Ef ábyrgðin liggur alltaf hjá knattspyrnustjórunum þegar að illa gengur verða þeir líka að fá hrósið þegar að vel gengur,“ segir Mourinho.

„Ég verð því að segja að erik ten Hag, þjálfari Ajax, og Solskjær hjá Manchester United verði að fá hrós fyrir þessi ótrúlegu úrslit,“ segir José Mourinho.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×