Erlent

Eitraði samlokur samstarfsmanna og hlaut lífstíðardóm

Andri Eysteinsson skrifar
Talsmaður dómstóla í Norðurrín-Vestfalíu Phil Gabler, ræðir hér við fjölmiðla.
Talsmaður dómstóla í Norðurrín-Vestfalíu Phil Gabler, ræðir hér við fjölmiðla. Getty/Friso Gentsch
Þýskur karlmaður, Klaus O, hefur verið dæmdur til lífstíðarfangelsisvistar fyrir að hafa eitrað fyrir þremur vinnufélögum sínum, einn þeirra féll í dá og hinir tveir glíma við alvarlegar skemmdir á nýrum. Sky greinir frá.

Samkvæmt þýskum réttarhefðum er eingöngu greint frá fornafni og upphafsstaf mannsins og því er eingöngu greint frá honum sem Klaus O. Klaus O er 57 ára gamall og vann í verksmiðju í bænum Schloß Holte-Stukenbrock í þýska sambandsríkinu Norðurrín-Vestfalíu.

Klaus ákvað að tjá sig ekkert fyrir rétti og því óljóst hvert markmið hans var. Við húsleit á heimili hans fannst heimatilbúin tilraunastofa og fjöldi hættulegra efna.

Þeir tveir sem hlutu nýrnaskaða, annar 27 ára og hinn 67, eiga nú í aukinni hættu á að fá krabbamein en Klaus eitraði fyrir þeim með blý og kadmín blöndu en kadmín er einmitt talið krabbameinsvaldandi.

Sá þriðji, 23 ára gamall lærlingur féll í dá og hlaut varanlegan heilaskaða en Klaus eitraði fyrir honum með kvikasilfri.

Upp komst um Klaus þegar litið var á öryggismyndavélar, en þar sást hann strá dufti á samlokur á kaffistofu fyrirtækisins. Dómarinn, Georg Zimmermann, sagði við réttarhöldin að brot hans væri jafn alvarlegt og morð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×