Erlent

Kvennafangelsi verður breytt í ódýrar íbúðir

Sylvía Hall skrifar
Holloway fangelsið.
Holloway fangelsið. Vísir/AP
Kvennafangelsið Holloway í norðurhluta Lundúnaborgar var selt íbúðafélaginu Peabody á föstudag fyrir tæplega 82 milljónir punda. Upphæðin nemur um 13 milljörðum íslenskra króna. Guardian greinir frá. 

Fangelsið var fyrsta kvennafangelsið í Bretlandi þegar það opnaði árið 1902 og var lengi það stærsta í vesturhluta Evrópu áður en það lokaði 2016 eftir að aðstæður þar voru metnar óviðunandi. 

Íbúðafélagið áætlar að breyta fangelsinu í þúsund íbúðir og hefur tilkynnt að meirihluti íbúðanna verði á hagstæðu verði. Um 70% ódýru íbúðanna verði leiguíbúðir og verður verð þeirra miðað við tekjur íbúanna. 

Kaupin á fangelsinu voru að hluta til fjármögnuð með láni úr sjóði á vegum borgarstjóra Lundúna og segir hann hið „byltingarkennda“ lán tryggja að stærsti hluti íbúðanna verði á viðráðanlegu verði. Jafnframt segir hann framkvæmdirnar sýna hvað hægt sé að gera á svæðum borgarinnar þrátt fyrir takmarkaðar valdheimildir.

Dómsmálaráðuneyti landsins hefur reynt að selja fangelsið frá því að það lokaði árið 2016 og segir Rory Stewart, fangelsismálaráðherra, að ágóði sölunnar muni gera ráðuneytinu kleift að gera umbætur á þeim fangelsum sem eru komin til ára sinna. 

Áætlað er að hefja framkvæmdir árið 2022 og er stefnt að því að ljúka þeim árið 2026. Í skipulagi fyrir íbúðirnar er gert ráð fyrir kvennaathvarfi, grænum svæðum og leiksvæðum fyrir börn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×