Erlent

Tugir slasaðir eftir að ferja skall á hval

Andri Eysteinsson skrifar
Ferjan komst til hafnar fyrir eigin vélarafli
Ferjan komst til hafnar fyrir eigin vélarafli Getty/Kyodo News
Yfir 80 farþegar um borð í japanskri ferju, sem var á leið milli Sado-eyjar og hafnarborgarinnar Niigata, eru slasaðir eftir að ferjan klessti á það sem er talið hafa verið hvalur.

Í yfirlýsingu frá skipstjóra ferjunnar baðst hann afsökunar á árekstrinum sem hann sagði hafa verið við sjávardýr. Samkvæmt frétt BBC segir sjávarlíffræðingur að umfang slyssins bendi til þess að um hval hafi verið að ræða.

Um borð í ferjunni voru 121 farþegi auk 4 áhafnarmeðlima. Samkvæmt rekstraraðila Ginga-ferjunnar komst ferjan til hafnar með sínu eigin vélarafli en rúmum klukkutíma á eftir áætlun. Ginga-ferjan er svokölluð háhraðaferja og getur náð allt að 80 km/h hraða.

Yfir 80 manns slösuðust við áreksturinn, þar af þrettán alvarlega og hafa hinir slösuðu verið fluttir á sjúkrahús.

Talið er að annaðhvort hafi verið um hrefnu eða hnúfubak að ræða en þær tegundir hvala fara nú um Japanshaf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×