Enski boltinn

Segir að United-Liverpool sé algjör lykilleikur í titilbaráttunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Naby Keita hjá Liverpool og Matteo Darmian hjá Manchester United í baráttunni í fyrri leik liðanna.
Naby Keita hjá Liverpool og Matteo Darmian hjá Manchester United í baráttunni í fyrri leik liðanna. EPA/PETER POWELL
Margir eru farnir að telja niður í leik Manchester United og Liverpool á Old Trafford á sunnudaginn kemur.

Matt Le Tissier, goðsögn úr ensku úrvalsdeildinni og nú sérfræðingur Sky Sports, telur að heimsókn Liverpool á Old Trafford muni ráða miklu um hvert enski meistaratitilinn fer í ár.

Liverpool kemst aftur á toppinn með því að ná stig í leiknum. Manchester City og Liverpool er nú með jafnmörg stig en City er með betri markatölu og hefur líka leikið leik meira.

Manchester City getur tryggt sér titil á sunnudaginn þegar liðið mætir Chelsea í úrslitaleik enska deildabikarsins.





Gamli Liverpool-fyrirliðinn Phil Thompson er á því að Liverpool verði enskur meistari takist liðinu að vinna Manchester United á Old Trafford.

Le Tissier er sammála því. „Það er samt mikið eftir enn þá og það er von á skrýtnum úrslitum á lokakaflanum þegar botnliðin eru að berjast fyrir lífi sínu og ná oft í stig af efstu liðunum,“ sagði Matt Le Tissier.

„Þetta er engu að síður risaleikur fyrir Liverpool og baráttu þeirra fyrir að vinna enska titilinn,“ sagði Le Tissier.

„Tapi Liverpool þessum leik þá afhenda þeir Manchester City frumkvæðið og ef það gerist þá má búast við því að Manchester City líti ekki til baka og fari alla leið og vinni titilinn,“ sagði Le Tissier.

„Ef Liverpool vinnur á Old Trafford þá held ég að það gef liðinu gríðarlegt sjálfstraust fyrir framhaldið. Þeir væru þá áfram í bílstjórasætinu og þetta væri þeirra titill að tapa,“ sagði Le Tissier.

Matt Le Tissier hrósar samt liði Manchester United og leggur áherslu á hversu sterkt liðið er orðið undir stjórn Ole Gunnars Solskjær.

„Öll lið sem hafa unnið 11 af 13 leikjum sínum eiga skilið aðdáun. Það eru fullt af leikjum þarna sem United átti alltaf að vinna en liðið vann einnig góðan útisigur á Tottenham auk þess að koma til baka á móti Burnley þrátt fyrir að vera 2-0 undir eftir 86 mínútur,“ sagði Le Tissier.

„Svo sýndi liðið styrk sinn í bikarsigrinum á Chelsea. Þar spilaði United-liðið mjög öflugan varnarleik en svo góða vörn hef ég ekki séð lengi hjá félaginu,“ sagði Le Tissier.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×