Handbolti

Aron Dagur búinn að semja við Alingsås

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Dagur Pálsson.
Aron Dagur Pálsson. vísir/bára
Aron Dagur Pálsson, leikstjórnandi Stjörnunnar í Olís-deild karla í handbolta, er búinn að semja við sænska úrvalsdeildarliðið Alinsås en þetta kemur fram á vef sænska félagsins.

Aron Dagur sagði við Vísi í gær að hann væri í viðræðum við Svíana en ekkert væri frágengið. Nú er það greinilega frágengið og þessi efnilegi 22 ára strákur því á leið í atvinnumennskuna.

„Ég er ánægður með að samningurinn er klár og nú get ég farið að hlakka til þess að koma til Alingsås. Mér leist vel á allt þegar að ég heimsótti borgina og félagið. Mér finnst þetta gott skref fyrir mig á þessu stigi ferilsins til að þróast sem handboltamaður,“ segir Aron Dagur við heimasíðu Alingsås.

Aron Dagur gekk í raðir Stjörnunnar frá Gróttu fyrir síðustu leiktíð en frammistaða hans í Garðabænum hefur verið upp og ofan eins og frammistaða Stjörnuliðsins í heild sinni.

Í fimmtán leikjum í vetur er Aron Dagur búinn að skora 4,7 mörk að meðaltali í leik með 46,7 prósent skotnýtingu, gefa 3,7 stoðsendingar í leik með þrjár löglegar stöðvanir og tapa tveimur boltum að meðaltali í leik.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×