Erlent

#Metoo málað á styttu af kossinum sögufræga

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Styttan er staðsett í Sarasota í Flórída-ríki Bandaríkjanna.
Styttan er staðsett í Sarasota í Flórída-ríki Bandaríkjanna. Mynd/Lögreglan í Sarasota
Aðeins degi efir að Bandaríkjamaðurinn George Mendonsa lést voru unnin skemmdarverk á styttu af honum og Gretu Zimmer Friedman. Styttan endurskapaði eina sögufrægustu ljósmynd allra tíma. #Metoo var málað með rauðu á styttuna.

Mendonsa lést á mánudaginn, 95 ára að aldri, en hann birtist á einni frægustu ljósmynd sögunnar frá árinu 1945 þar sem sést til hans smella rembingskossi á Friedman á Times-torgi í New York eftir að fréttir bárust af uppgjöf Japana í síðari heimsstyrjöldinni.

Myndin hefur alla jafna þótt vera merki um þá miklu gleði sem braust út eftir að í ljós kom að seinni heimstyrjöldin væri á enda en tugir þúsunda komu saman á Times-torgi til að fagna tíðindunum þann 14. ágúst 1945.

Ljósmyndin sögufræga.Getty
Á undanförnum árum hafa þó ýmsir bent á að á myndinni megi sjá skýrt dæmi um kynferðislegt ofbeldi þar sem Mendoza hafi ekki haft leyfi til að kyssa hana.

Í viðtali árið 2005 sagði Friedman frá því að Mendonsa hafi gripið hana og að það hafi ekki verið hennar val að verða kysst á þessu augnabliki. Kossinn hafi þó verið einhvers konar gleðiathöfn. Þá hefur sonur hennar sagt að Friedman hafi aldrei litið á kossinn í neikvæðu ljósi.

Ætla má að þeir sem frömdu skemmdarverkin hafi með því að mála #Metoo á styttuna, sem staðsett er í Sarasota í Flórída-ríki, ætlað sér að beina athyglinni að kynferðislegri áreitni og ofbeldi. Myllumerkið hefur verið notað frá árinu 2017 þegar fjölmargar konur, íslenskar og erlendar, stigu fram og sögðu frá kynferðislegu áreiti sem þær hafa orðið fyrir í gegnum tíðina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×