Enski boltinn

Eigendur Man. City eignast sitt sjöunda fótboltafélag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester City hefur unnið sjö titla síðan nýir eigendur tóku yfir félagið.
Manchester City hefur unnið sjö titla síðan nýir eigendur tóku yfir félagið. Getty/Matthew Ashton
Eignarfélag eigenda Manchester City, City Football Group, hefur keypt kínverska þriðju deildarfélagið Sichuan Jiuniu FC.

Sichuan Jiuniu FC spilar í kínversku 2. deildinni og spilar heimaleiki sina á 27 þúsund manna velli.





Þetta er sjöunda félagið í eigendahóp CFG en þar eru fyrir utan lið Manchester City félög eins og Girona á Spáni, New York City FC í MLS-deildinni og Melbourne City FC í Ástralíu. Önnur félög eru Yokohama F. Marinos í Japan, Club Atlético Torque í Úrúgvæ og nú síðast Sichuan Jiuniu.  

„Við höfum mikla trú á framtíð fótboltans í Kína. Við erum að fjárfesta til framtíðar og ætlum bæði að þróa Sichuan Jiuniu FC og rækta upp framtíðar fótboltamenn í Kína. Bæði markmiðin eru jafnmikilvæg,“ sagði í fréttatilkynningu frá City Football Group.

CFG-félagið eignaðist Manchester City í ágúst árið 2008 þegar City var búið að vera um miðja deild í mörg ár og hafði ekki unnið stóran titil frá 1976 (enski deildabikarinn).

City varð enskur bikarmeistari árið 2011 (þann fyrsta síðan 1969) og hefur síðan unnið ensku deildina þrisvar sinnum (unnu hann ekki í 44 ár, 1968-2012) og enska deildabikarinn þrisvar sinnum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×