Körfubolti

Sara Rún klárar tímabilið með Keflavíkurliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Rún Hinriksdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Sara Rún Hinriksdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Stefán
Kvennalið Keflavíkur í körfuboltanum fær mikinn liðstyrk í næsta mánuði þegar liðið endurheimtir landsliðskonuna Söru Rún Hinriksdóttur úr námi í Bandaríkjunum.

Keflavík segir frá heimkomu Söru á fésbókarsíðu sinni en liðið er þarna að fá til sín eina af bestu körfuboltakonum landsins.

Sara Rún Hinriksdóttir er uppalin í Keflavík og var ung að aldri orðin lykilmaður í meistaraflokki félagsins. Hún var valin í úrvalslið deildarinnar á sínu síðasta tímabili í deildinni 2014-15 auk þess að vera þá kosin besti ungi leikmaður deildarinnar í annað skiptið á þremur árum.

Sara Rún Hinriksdóttir er að klára nám sitt í Canisius háskólanum í Bandaríkjunum þar sem hún hefur spilað með körfuboltaliði skólans frá árinu 2015.  Sara Rún er með 12,6 stig og 8,0 fráköst að meðaltali í bandaríska háskólaboltanum í betur. 

Þegar Sara Rún spilaði síðast með Keflavík tímabilið 2014-15 þá var hún átján ára gömul með 14,1 stig og 7,4 fráköst að meðaltali í leik.

Sara Rún skoraði 31 stig í síðasta leik sínum með Keflavík sem var í lokaúrslitum Íslandsmótsins vorið 2015 þar sem Keflavíkurkonur töpuðu á móti Snæfelli.

Keflavíkurliðið er á toppi Domino´s deildar kvenna eftir sannfærandi stórsigur í toppslag á móti KR í gærkvöldi. Liðið verður því ekki árennilegt með Söru Rún líka.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×