Innlent

Tekur um hálfan mánuð að undirbúa verkfall

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir verkfallsjóði félagsins sterka. Magnús Norðdahl, lögfræðingur ASÍ, segir það taka um tvær vikur að undirbúa  stór verkföll.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir verkfallsjóði félagsins sterka. Magnús Norðdahl, lögfræðingur ASÍ, segir það taka um tvær vikur að undirbúa stór verkföll.
Það tekur allajafna rúman hálfan mánuð að undirbúa stór verkföll, en verkfall má framkvæma með ýmsum hætti. Stéttarfélögin hafa í valdi sínu hversu víðtæk þau eru. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR segir verkfallsjóðinn standa vel og geti greitt út tekjutap fólks komi til verkfalla.

Verkfall má framkvæma með ýmsum hætti án þess að það teljist ólöglegt. Hægt er að setja á yfirvinnubann, að ekki sé unnið um helgar, að hluti hópsins á vinnustað leggi niður störf í tiltekinn tíma eða að vissir þættir starfs séu ekki unnir.

„Verkalýðsfélögin ákveða það hvaða hópa þau vilja láta verkfallið taka til. Þau geta látið það taka til allra félagsmanna sinna, eða þau geta takmarkað það við starfsmenn á tilteknum vinnustöðum, ákveðin verk sem eru framkvæmd, það eru allskonar möguleikar opnir í því,“ segir Magnús Norðdahl lögfræðingur ASÍ.

Ákvörðun um verkfall verður að taka í almennri leynilegri atkvæðagreiðslu hjá þeim hópi sem fara á í verkfallið. Meirihlutinn þarf að samþykkja. Þeir sem ekki samþykkja fara þó í verkfall komi til þess. Stéttarfélögin ráða framkvæmd verkfallsins.  Þegar ákvörðun liggur fyrir þarf að tilkynna ríkissáttasemjara, og þeim sem verkfallið beinist gegn, með sjö daga fyrirvara. Magnús segir misjafnt hve langan tíma undirbúningurinn tekur.

„Ætli maður myndi ekki giska rúman hálfan mánuð ef um er að ræða stórt verkfall en það er hægt að gera þetta á skemmri tíma. Kannski tíu dögum hálfum mánuði,“ segir Magnús aðspurður hvað ferlið gæti tekið langan tíma.

Sterkir verkfallssjóðir

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir stéttarfélög geta komið til móts við tekjutap fólks, komi til verkfalla.

„Verkfallssjóðirnir standa svo sannarlega undir því. Vinnudeilusjóður VR stendur í um fjórum milljörðum í dag. Síðan er það hvernig þú boðar til vinnudeilna. Ef við færum til dæmis í allsherjar verkfall eins og boðað var til 2015 þá myndu vinnudeilusjóðir okkar duga skammt í að bæta fólki upp tekjutap. En ef við færum í staðbundin verkföll, þar sem farið væri kannski í aðgerðir á smærri vinnustöðum. Þá munum við hafa getu til að borga fólki full laun og bæta að fullu upp tekjutap sem að fólk verður fyrir í slíkum vinnudeilum,“ segir Ragnar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×