Jói Berg lagði upp sigurmarkið gegn Tottenham

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Tom Heaton fagnar sigurmarkinu eins og enginn sé morgundagurinn
Tom Heaton fagnar sigurmarkinu eins og enginn sé morgundagurinn vísir/getty
Jóhann Berg Guðmundsson lagði upp sigurmark Burnley gegn Tottenham á Turf Moor í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Tottenham var með mikla yfirburði í fyrri hálfleik og komu heimamenn ekki skoti á markið. Gestirnir náðu hins vegar ekki að gera neitt við yfirburði sína og var markalaust í hálfleik.

Eftir tæpan klukkutíma fékk Burnley hornspyrnu. Fyrirgjöfin kom inn á teiginn, Chris Wood stökk manna hæst í teignum og skallaði boltann, sláin inn.

Mauricio Pochettino var hins vegar brjálaður á hliðarlínunni. Ekkert að markinu, en það er stórt vafaatriði hvort Burnley hafi átt að fá hornspyrnuna sem markið kom úr.

Gestirnir náðu hins vegar að svara fyrir mögulegt óréttlætið á vellinum. Harry Kane var að spila sinn fyrsta leik eftir meiðsli og að sjálfsögðu var það markahrókurinn sem skoraði jöfnunarmarkið.

Hann slapp inn fyrir eftir sofandahátt í varnarleik Burnley upp úr innkasti og kláraði laglega framhjá Tom Heaton.

Á 80. mínútu kom Jóhann Berg Guðmundsson inn á. Íslenski landsliðsmaðurinn hefur verið að glíma við meiðsli og byrjaði leikinn á bekknum.

Þremur mínútum seinna var hann búinn að koma Burnley yfir. Vissulega skoraði Ashley Barnes markið en Jóhann Berg gerði frábærlega í undirbúningnum, fékk boltann rétt fyrir utan teiginn, kom sér í fyrirgjafastöðu og Barnes þurfti ekkert að gera nema stýra boltanum yfir línuna.

Lokatölur á Turf Moor 2-1 fyrir Burnley sem er enn án taps árið 2019. 

Sigurinn kemur þeim upp í 13. sæti deildarinnar og eru nú sex stig niður í fallsæti. Tottenham er hins vegar í hættu á að missa af lestinni í titilbaráttunni, fimm stigum á eftir Liverpool og Manchester City.

Viðtal við Mauricio Pochettino
 
Viðtal við Sean Dyche
 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira