Innlent

„Ekkert fyrirtæki í neinu landi“ gæti staðið undir kröfum verkalýðsforystunnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bjarnheiður Hallsdóttir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Bjarnheiður Hallsdóttir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Bjarnheiður Hallsdóttir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir skýrt að verkalýðsforystan ætli að valda sem mestu tjóni til að ná fram kröfum sínum. Þá séu verkföll sem leiðtogar verkalýðsfélaganna boði „ein mesta og versta utanaðkomandi ógn sem ferðaþjónusta getur staðið frammi fyrir.“

Fram kom í máli Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA, í Kastljósi í gær að efnislega hljóðuðu kröfur VR sem beindust að fyrirtækjunum í landinu upp á 60 til 85 prósent launahækkun. 

Í Fréttablaðinu í dag var svo  svo fjallað um kröfur Starfsgreinasambandsins og því haldið fram að þær hljóðuðu upp á 70 til 85 prósent hækkanir á samningstímabilinu. Samkvæmt heimildum blaðsins hefði Efling haldið þessum kröfum til streitu í viðræðum við SA.

Ferðaþjónustan „fyrsta skotmark verkalýðshreyfingarinnar“

„Fréttir gærdagsins um viðræðuslit og verkfallsboðanir eru dapurlegar fyrir ferðaþjónustuna og þjóðfélagið allt. Það er mikill ábyrgðarhluti að standa fyrir verkföllum og lama atvinnustarfsemi í landinu um lengri eða skemmri tíma. Fyrirætlanir verkalýðsforystunnar eru skýrar - hún ætlar að valda sem mestu tjóni til að ná fram sínum kröfum. Kröfum sem eru þess eðlis að ekkert fyrirtæki í neinu landi kæmist nálægt því að geta staðið undir þeim,“ segir Bjarnheiður í færslu sem hún birti á Facebook í dag.

Þá segir Bjarnheiður að verkföll myndu valda óheyrilegum skaða fyrir þjóðarbúið allt, orðspor og ímynd landsins.

„Það má ekki gleymast að 86,3% ferðaþjónustufyrirtækja eru lítil - oft rekin af einstaklingum eða fjölskyldum. Fyrsta skotmark verkalýðshreyfingarinnar er einmitt ferðaþjónusta. Enda hægt að valda þar miklum skaða á skömmum tíma. Ekki bara þeim óheyrilega skaða fyrir allt þjóðarbúið, meðan á aðgerðum stendur - heldur valda þær tjóni á orðspori og ímynd landsins sem ferðamannalands. Geta þar með haft áhrif á bókanir ferðamanna inn í framtíðina,“ segir Bjarnheiður.

„Verkföll eru ein mesta og versta utanaðkomandi ógn sem ferðaþjónusta getur staðið frammi fyrir. Ferðaþjónusta á Íslandi veltir um 1,4 milljörðum að meðaltali dag hvern. Hún er ein stærsta undirstaða íslensks efnahagslífs. Að stofna henni í hættu í einhverjum veruleikafirrtum leikfléttum er dauðans alvara - sem á endanum bitnar á öllum.“



Í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær endurspeglaði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, þetta viðhorf Bjarnheiðar. Hann sagði rekstur margra ferðaþjónustufyrirtækja í járnum og að einhver þeirra gætu farið í þrot verði af verkfallsaðgerðunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×