Erlent

Einn látinn í snjóflóði í Austurríki

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Snjóflóðið féll skammt frá bænum Reutte.
Snjóflóðið féll skammt frá bænum Reutte. Getty
Að minnsta kosti einn er látinn eftir að snjóflóð skall á austurrískum skógi nálægt landamærum Austurríkis og Þýskalands. Fjórum hefur verið bjargað á lífi úr flóðinu en viðbragðsaðilar þræða nú svæðið í leit að fleirum sem kunna að hafa orðið snjóflóðinu að bráð.

Snjóflóðið féll skammt frá skíðasvæði í Reutte í Austurríki. Vegir að svæðinu þar sem flóðið féll voru flestir ófærir sökum annars snjóflóðs sem fallið hafði á fimmtudag, og gerði það björgunarfólki nokkuð erfitt um vik að komast að svæðinu.

Samkvæmt talsmanni lögreglunnar á svæðinu slasaðist aðeins einn þeirra sem komst lifandi frá flóðinu. Öll fimm sem lentu í flóðinu voru skíðafólk.

Fjórar þyrlur voru notaðar til þess að ferja björgunarfólk á svæðið og um 60 slökkviliðsmenn, fjallalögregluþjónar og leitarhundar sinna leitinni. Lögreglan segir of snemmt að segja til um hvað olli snjóflóðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×