Innlent

Forsætisráðherra hefur áhyggjur af Brexit án samnings

Kjartan Kjartansson skrifar
Í viðtalinu segir Katrín meðal annars að vinstrisinnaðir vinir hennar á Bretlandi séu algerlega andsnúnir sjálfstæði Skotlands vegna þess að þeir óttist að við það færðust bresk stjórnmál lengra til hægri.
Í viðtalinu segir Katrín meðal annars að vinstrisinnaðir vinir hennar á Bretlandi séu algerlega andsnúnir sjálfstæði Skotlands vegna þess að þeir óttist að við það færðust bresk stjórnmál lengra til hægri. Vísir/vilhelm
Bretland verður í afar þröngri stöðu ef það gengur úr Evrópusambandinu án útgöngusamnings og það væri áhyggjuefni fyrir Ísland, að mati Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC í Skotlandi sagði Katrín telja að Skotlandi gæti „algerlega“ verið sjálfstætt ríki.

„Brexit án samnings hlýtur að vera mjög erfið staða fyrir Bretland. Þar af leiðandi er það líka áhyggjuefni fyrir okkur, bæði vegna þess að við höfum efnahagslegra hagsmuna að gæta en einnig vegna þess að við lítum á Bretland sem vin okkar í heiminum,“ sagði Katrín við BBC Skotland.

Spurð um aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu (EES) sagði Katrín að fyrirkomulagið hafi hentað Íslandi vel. Það njóti aðgangs að evrópskum mörkuðum en hafi á sama tíma „pláss til að gera okkar hluti“.

Ísland hafi rödd innan Evrópusambandsins og aðeins rúm 13% af lögum og reglum komi frá Evrópu. Sagði Katrín mikilvægt að deila sumum reglum með Evrópu.

„Umhverfisreglugerðir Evrópusambandsins hafa verið mjög gagnlegar fyrir íslenskt samfélag. Ég held líka að hvað varðar fjármálamarkaði sé gott að hafa sama lagaumhverfið,“ sagði forsætisráðherra.

Hún telur engu að síður að það hafi verið gott fyrir Ísland að standa utan Evrópusambandsins eftir að fjármálakreppan skall á.

Katrín var einnig spurð út í mögulegt sjálfstæði Skotlands í viðtalinu. Meirihluti Skota hafnaði sjálfstæði í þjóðaratkvæðisgreiðslu árið 2014. Forsætisráðherra sagði að sjálfstæðið hefði skipt Íslendinga miklu og að stærð þjóðarinnar væri aukaatriði.

Þannig að Skotland gæti verið sjálfstætt?

„Algerlega, algerlega…en það er ekki ákvörðun sem ég ætla að taka. Þetta er mjög viðkvæmt mál,“ segir Katrín.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×