Innlent

Rúður sprungu í fimm bílum í veðurofsanum

Birgir Olgeirsson skrifar
Einn þeirra bíla sem skilinn var eftir við Hvaldal í morgun.
Einn þeirra bíla sem skilinn var eftir við Hvaldal í morgun. Björgunarfélag Hornafjarðar
Rúður sprungu í fimm bílum á veginum við Hvaldal á Suðausturlandi í morgun. Mikið óveður hefur verið þar í morgun, og er enn, en fulltrúi í aðgerðastjórn Björgunarfélags Hornafjarðar, segir algengt að við þessar aðstæður að vindurinn nái að feykja möl sem varð til þess að rúðurnar sprungu.

Allt voru þetta bílar sem erlendir ferðamenn voru með á leigu en útkall barst til björgunarsveitarinnar upp úr klukkan níu í morgun.

Voru ferðamennirnir ferjaðir á nálægan sveitabæ og er nú unnið að því að flytja þá til Hornafjarðar. Jóna Margrét Jónsdóttir, sem er í aðgerðastjórn Björgunarfélags Hornafjarðar, segir engan hafa sakað.

Hafa björgunarsveitarmennirnir þurft að tryggja þakplötur vegna veðurofsans.Björgunarfélag Hornafjarðar
Dagurinn byrjaði nokkuð snemma hjá björgunarsveitarmönnum í Hornafirði sem voru kallaðir út klukkan hálf fimm í morgun. Höfðu þakplötur fokið í storminum og höfðu einnig rúður sprungið í bíl við Hvaldal. 

Fram að hádegi hafa þeir einnig verið kallaðir út vegna girðinga sem hafa fokið og þá hefur klæðning fokið af veginum í Lónssveit sem liggur að Almannaskarðsgöngunum en honum hefur nú verið lokað. 

Jóna Margrét segir að vind hafi tekið að lægja núna í hádeginu en veðrið mun ganga niður upp úr klukkan 14 í dag.

Björgunarfélag Hornafjarðar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×