Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Haukar 28-29│Haukar höfðu betur í spennuleik

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Atli Már Báruson, leikmaður Hauka.
Atli Már Báruson, leikmaður Hauka. vísir/bára
 

Haukar unnu Stjörnuna 29-28 í Garðabænum í Olís deild karla í kvöld. Heimamenn byrjuðu aðeins betur en Haukar voru ekki lengi að gera þetta spennandi. Leikurinn var spennandi fram á síðustu sekúndu en Haukar höfðu betur. 

 

Egill Magnússon og Garðar Benedikt Sigurjónsson byrjuðu leikinn af krafti fyrir Stjörnuna. Þeir félagar skoruðu 6 fyrstu mörk Stjörnunnar sem voru skrefi á undan fyrstu tíu mínúturnar.  Haukar voru ekki lengi að jafna leikinn og neyða Stjörnuna útí leikhlé í stöðunni 7-7. Adam Haukur Baumruk hrökk heldur betur í gang og skoraði 6 mörk í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 14-14. 

 

Haukar komu miklu betur stemmdir út í seinni hálfleikinn. Lentu bara einu sinni undir og voru eiginlega alltaf skrefi á undan. Heimamenn voru duglegir að elta og náðu oftast að jafna en Haukar gátu eiginlega alltaf búið sér til gott færi. Þeir náðu að nýta línuna gríðarlega vel og Heimir Óli Heimisson línumaður Hauka skoraði 8 mörk í leiknum. 

 

Með tæpar tvær mínútur eftir voru Haukar yfir með þremur mörkum eins og mest allan seinni hálfleikinn, 26-29. Rúnar Sigtryggsson þjálfari Stjörnunnar tók í þeirri stöðu leikhlé og úr þeirri sókn kom mark. Næsta sókn Hauka endaði með lélegu skoti úr horninu. Stjarnan náði aftur að skora úr næstu sókn og þetta var orðið spennuleikur með hálfa mínútu eftir. Haukar náðu þó að eyða eiginlega öllum tímanum af klukkunni og Stjarnan fékk ekki tækifæri til að jafna. 

 

Af hverju unnu Haukar?

Haukar voru betri allan seinni hálfleikinn. Heimir Óli var trekk í trekk laus á línunni og það skapaði urmul af mörkum. Haukar eru betra liðið en þetta var jákvæður leikur fyrir Stjörnuna sem eru búnir að vera í miklu brasi upp á síðkastið.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Adam Haukur Baumruk var klárlega maður leiksins í kvöld. 9 mörk, 5 stoðsendingar og 4 löglegar stöðvanir. Heimir Óli var frábær á línunni og ágætur í vörninni líka. Orri Freyr Þorkelsson var að klára færin sín mjög vel úr vinstra horninu í kvöld. 

 

Egill Magnússon byrjaði rosalega vel í kvöld og átti heilt yfir flottan leik. 9 mörk úr 18 skotum. Garðar Benedikt Sigurjónsson var mjög góður á línunni hjá Stjörnunni í kvöld, skoraði 6 mörk. Ragnar Snær 

 

 

Hvað gerist næst?

Bikarhelgi næstu helgi. Hvorugt liðið komst þangað svo liðin æfa bara stíft þangað til. 

 

 

Gunni Magg:Ánægður að ná í tvö stig 

„Fyrst og fremst er ég náttúrulega ánægður með að ná í tvö stig. Þau telja auðvitað mikið. Við getum gert betur en við gerðum í kvöld en Stjörnumenn voru bara mjög erfiðir. Þeir voru mjög góðir í kvöld. Egill var sjóðheitur, þá þurftum við að fara út í hann og þá opnaðist fyrir aðra í leiðinni. Ég er bara virkilega ánægður að ná í tvö stig í kvöld” sagði Gunnar Magnússon þjálfari Hauka eftir leik kvöldsins. 

 

Haukar voru með þriggja marka forskot með tæpar tvær mínútur. Þeir voru samt næstum því búnir að gefa Stjörnunni tækifæri á að jafna í lokin. Gunnar var eins og mátti búast við ekki ánægður með þetta. 

 

„Við erum auðvitað bara klaufar hérna í lokin. Hendin var komin mjög snemma upp og við þurftum að fara mjög snemma í aðgerðir. Við hefðum vel getað klárað þetta betur en við kláruðum þetta allavega og það er aðal atriðið.” 

 

Fyrsta tveggja mínútna brottvísun leiksins kom eftir rúmlega 40 mínútur af leiknum. Gunnar var ánægður með hvernig hans menn spiluðu vörn án þess að fara yfir línuna. 

 

„Við vorum bara fastir fyrir og allir voru fastir fyrir. Bæði lið héldu línunni sem dómararnir leyfðu nokkuð vel sem er kannski þessi lína sem að dómararnir hafa leyft í vetur og við höfum bara aðlagað okkur að því.” 

 

Núna farið þið í smá frí þar sem þið komust ekki í bikarundanúrslitin, hvernig á að nýta það? 

 

„Við tökum helgarfrí og byrjum svo aftur á mánudaginn á fullu. Við ætlum auðvitað að nýta pásuna vel, það er margt sem við getum lagað og margt sem við þurfum að vinna í og við náttúrulega bara stefnum á að toppa í vor þegar á hólminn er komið. Það er mikið eftir af mótinu og margt sem á eftir að gera.” 

 

 

Rúnar:Er ekki best að segja bara sem minnst?

„ Við misstum smá línuna bæði í sóknarleiknum og varnarleiknum, bara í smá kafla. Haukarnir refsuðu fyrir það, í byrjun seinni hálfleiks aðallega. Það komu smá kaflar þarna á milli sem ollu þess að við náðum ekki að vinna leikinn” sagði Rúnar Sigtryggson þjálfari Stjörnunnar um hvað kostaði tvö stigin í kvöld. 

 

Stjarnan byrjaði leikinn vel og staðan var jöfn í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var hinsvegar ekki jafn góður hjá Stjörnunni fannst Rúnari. 

 

 „Við vorum að spila fínan bolta. Við vorum góðir í vörn. Lengst yfir vorum við að ná að tækla þá og láta þá hafa fyrir hlutunum. Sóknarlega vorum við að spila okkur fría. Það vantaði kannski aðeins uppá nýtinguna til að vera með forskotið í hálfleik. Við misstum kannski smá línuna í lok fyrri hálfleiks. Tvær síðustu sóknirnar voru ekki nógu góðar. Það má ekki gera mörg mistök á móti liði eins og Haukum, það er bara þannig.” 

 

Ragnar Snær Njálsson spilaði í kvöld sinn fyrsta leik fyrir Stjörnuna. Ragnar byrjaði inná í tvist í vörninni og spilaði liggur við allar varnir Stjörnunnar í leiknum. Rúnar var mjög ánægður með komu Ragnars í liðið.

 

„Hann var bara veggur. Það var frábært að fá hann og gaman að sjá hann. Þetta er akkúrat það sem við þurftum, vítamínsprauta fyrir okkur.” 

 

„ Það er auðvitað súrt fyrir okkur að fá ekkert úr þessum leik miðað við hvernig staðan er í deildinni. Við verðum hinsvegar að taka það með sem var jákvætt hérna í kvöld. Sérstaklega innkoma Ragnars, hann þétti vörnina gríðarlega mikið. Eftir tvær og hálfa viku þegar deildin byrjar aftur verðum við betri en í dag.” 

 

Þetta var sjötti leikur Stjörnunnar í röð þar sem þeir ná ekki í sigur. Rúnar hefur samt mikla trú á að liðið komist í úrslitakeppni.

 

„Við horfum líka á það að við erum búnir að spila við topp liðin. Við vorum ekki að standa okkur nógu vel á móti þeim. Við vorum ekki að sýna nógu góðan leik. Þetta er í fyrsta skipti í kvöld í langan tíma sem ég er sáttur með hvernig við spilum að mörgu leyti. Þetta er skref uppá við, þetta var miklu betra heldur en á móti KA og þetta er eitthvað til að byggja á.”

 

Leikmennirnir þínir voru allt annað en ánægðir með dómgæsluna á lokasekúndunum hvað fannst þér um það atvik? 

 

„Er ekki best að segja bara sem minnst?” 

 

 

 

 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira