Sport

Anderson Silva og Israel Adesanya með skemmtileg tilþrif í vinalegum bardaga

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Adesanya og Anderson hneigðu sig fyrir hvor öðrum eftir bardagann.
Adesanya og Anderson hneigðu sig fyrir hvor öðrum eftir bardagann. Vísir/Getty
UFC 234 fór fram í nótt í Ástralíu þar sem þeir Anderson Silva og Israel Adesanya mættust í aðalbardaga kvöldsins. Báðir sýndu skemmtileg tilþrif og ríkti nokkur ánægja með bardagann.

Upphaflega áttu þeir Robert Whittaker og Kelvin Gastelum að berjast í aðalbardaga kvöldsins um millivigtartitil UFC. Nokkrum klukkutímum fyrir bardagann var Whittaker hins vegar sendur á sjúkrahús með kviðslit og fór umsvifalaust í aðgerð. Bardaginn var því blásinn af og var bardagi Israel Adesanya og Anderson Silva gerður að aðalbardaga kvöldsins.

Þar mætti goðsögnin Anderson Silva vonarstjörninni Israel Adesanya. Báðir sýndu skemmtilega takta og var um tíma líkt og þetta væri kung-fu mynd en ekki alvöru bardagi. Adesanya vankaði Anderson í 1. lotu en annars stóð hinn 43 ára gamli Anderson flest allt af sér. Sigurinn var aldrei í vafa en Anderson átti sín augnablik. Hann beygði sig undir háspörk Adesanya nokkrum sinnum og sýndi að hann ætti enn smá eftir á tankinum.

Þetta var sennilega það besta sem gat komið úr þessum skemmtilega bardaga þar sem Adesanya náði sigrinum en Anderson var ekki sleginn í rot. Þeir Adesanya og Anderson föðmuðust umsvifalaust eftir bardagann og báru greinilega mikla virðingu fyrir hvor öðrum. Öll önnur úrslit kvöldsins má nálgast á vef MMA Frétta hér.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×