Innlent

„Við erum að tapa allt of mörgu fólki í banaslysum“

Kristín Ýr Gunnarsdóttir og Stefán Árni Pálsson skrifa
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. visir/vilhelm
Samgöngu og sveitarstjórnaráðherra segir nauðsynlegt að fara í stórar aðgerðir á vegakerfinu. Umferðaröryggi sé ekki nógu gott og of margir slasast eða láta lífið í umferðinni. Finna þurfi leiðir til fjármögnunar.

Mikill umræða hefur verið um vegtolla og réttmæti þeirra en í þættinum Sprengisandi í morgun sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, nauðsynlegt að fara í stórar aðgerðir á vegakerfinu því umferðaröryggi sé ábótavant. Það þurfi að fjármagna þær framkvæmdir.

„Við erum að tapa allt of mörgu fólki í banaslysum og alvarlegum slysum. Kostnaður samfélagsins er 50-60 milljarðar á ári og þessi plön sem að við höfum verið að leggja áherslu á með umferðaröryggi á umferðaþyngstu og slysamestu stöðunum. Með þessum áformum, að gera meira á næstu fimm, sex árunum en við ætluðum, gætum við minnkað þennan kostnað um helming,“ segir Sigurður.

Hann segir umræðuna um veggjöld ekki alltaf málefnalega en gagnrýnt hefur verið að veggjöld hækki skatta á fólkið í landinu.

„Við höfum auðvitað sagt að ef við höfum verið að nota eitt prósent af landsframleiðslu til framkvæmda og 75 prósent hafa verið greitt af bifreiðaeigendum. Ef við ætlum að auka viðhaldið, auka framkvæmdirnar og auka þjónustuna, þá munum við nota stærra hlutfall af þessum fjármunum. Hver á þá að fjármagna löggæsluna sem fylgist með umferðinni. Hver á að fjármagna þann kostnað heilbrigðiskerfisins sem kemur til frá umferðinni? Þá þarf einhverstaðar að taka þá peninga og það er þá breytt forgangsröðun,“segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×