Innlent

Varaþingmaður Pírata hellti sér yfir blaðakonu

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Erna Ýr Öldudóttir fyrrverandi formaður framkvæmdaráðs Pírata og blaðamaður.
Erna Ýr Öldudóttir fyrrverandi formaður framkvæmdaráðs Pírata og blaðamaður. Vísir/Stöð2
„Ég sagðist fyrirlíta hana fyrir að vinna hjá Birni Inga Hrafnssyni,“ segir Snæbjörn Brynjarsson, varaþingmaður Pírata, um svívirðingar sem hann jós yfir Ernu Ýri Öldudóttur, blaðamann hjá Viljanum og fyrrverandi formann framkvæmdaráðs Pírata, á Kaffibarnum aðfaranótt laugardags.

„Þetta var mjög óþægilegt og ógnandi,“ segir Erna Ýr og fullyrðir að Snæbjörn hafi lýst því yfir að hann hataði hana og sagst vilja berja hana, þar sem hún stóð á spjalli við tvo menn á reykingasvæði Kaffibarsins. Þetta upphlaup hafi komið henni verulega á óvart enda þekki hún Snæbjörn ekki persónulega og hafi aldrei talað við hann fyrr.

Erna segir að í ljósi umræðu í samfélaginu um háttsemi þingmanna, finnist henni þessi framkoma varaþingmannsins eiga erindi við almenning.

Fréttablaðið ræddi við annan mannanna sem urðu vitni að atvikinu og er kunnugur Snæbirni. Hann staðfestir að Snæbjörn hafi lýst fyrirlitningu sinni á Ernu, verið mikið niðri fyrir en segir hann ekki hafa hótað henni ofbeldi.

„Ég myndi aldrei hóta blaðamanni, en ég skulda henni samt afsökunarbeiðni fyrir að vera að segja skoðun mína á Birni Inga. Maður á ekki að vera með leiðindi við fólk í glasi,“ segir Snæbjörn.

Uppfært: Snæbjörn hefur sagt af sér þingmennsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×