Erlent

Lokun stofnana vofir enn á ný yfir í Bandaríkjunum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump í Hvíta húsinu á fundi um öryggi á landamærum Bandaríkjanna.
Donald Trump í Hvíta húsinu á fundi um öryggi á landamærum Bandaríkjanna. Getty/Alex Wong
Hvorki hefur gengið né rekið í samningaviðræðum Demókrata og Repúblikana á Bandaríkjaþingi um áframhaldandi fjármögnun alríkisstofnana. Samningar þurfa að nást í dag svo koma megi í veg fyrir umfangsmiklar lokanir á stofnunum.

Samkomulag sem náðist á milli flokkanna tveggja í síðasta mánuði sem batt tímabundinn enda á lengstu lokanir alríkisstofnana í sögu Bandaríkjanna rennur út á föstudaginn.

Undanfarnar vikur hafa fulltrúar beggja flokka fundað stíft í von um að ná samkomulagi sem fjármagni muni alríkisstofnanirnar til frambúðar. Til þess að náist í tæka tíð áður en gamla samkomulagið rennur út þarf að semja í dag, svo hið nýja samkomulag geti farið í gegnum þingið fyrir föstudag.

Deilur Demókrata og Repúblikana snúast að mestu um kröfu Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um fjármagn til þes að byggja umdeildan múr á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna. Trump vill 5,7 milljarða dollara í verkið en í samningaviðræðunum hefur komið fram að þingmenn geti mögulega sæst á 1,3 til 2 milljarða fjárveitingu til verksins.

„Það er 50-50 að við getum náð að semja,“ sagði Richard Selby, öldungardeildarþingmaður Repúblikana sem fyrir samninganefnd eigins flokks. „Lokunin vofir yfir.“

Hundruð þúsundir alríkisstarfsmanna máttu sitja heima, án launa, í um þrjár vikur á meðan fyrri lokun stóð. Talið er að lokunin hafi kostað bandaríska efnahaginn um ellefu milljarða dollara.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×