Erlent

Svikahrappur gat varla lent á verra „fórnarlambi“

Samúel Karl Ólason skrifar
William H. Webster er eini maðurinn í sögu Bandaríkjanna sem hefur bæði verið yfirmaður FBI og CIA.
William H. Webster er eini maðurinn í sögu Bandaríkjanna sem hefur bæði verið yfirmaður FBI og CIA. Getty/Patrick McDermott
Svikahrappur sem hringdi í níræðan Bandaríkjamanna og sagði hann hafa unnið fúlgur fjár og bíl í happdrætti, gat varla lent á verra „fórnarlambi“. Svikahrappurinn sagði William H. Webster að hann þyrfti að senda sér 50 þúsund dali í skatta og gjöld svo hann gæti fengið vinning sinn. Þá sagðist hrappurinn hafa lesið sér til um Webster og hann væri augljóslega góður maður.

„Þú varst dómari, þú varst lögmaður, körfuboltamaður og þú varst í sjóhernum og heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna,“ sagði svikahrappurinn með miklum hreimi. „Ég veit allt um þig. Ég hef meira að segja séð mynd af þér og dýrmætri konu þinni.“

Það sem svikahrappurinn vissi þó ekki, var að hann var að tala við eina manninn í sögu Bandaríkjanna sem hefur bæði verið yfirmaður Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) og Leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA).

Degi seinna hringdi Webster aftur í svikahrappinn og ræddi við hann. Það sem meira er, þá voru útsendarar FBI að hlera samtal þeirra. Webster tókst að fá manninn til að gefa upp eigið nafn og póstfang.

Washington Post segir svikahrappinn heita Kenial A. Thomas og að hann hafi hringt margsinnis í Webster í kjölfarið og meðal annars hótað að myrða eiginkonu hans.



Þetta gerðist árið 2014 en Thomas var þó ekki handtekinn fyrr en í lok ársins 2017 þegar hann flaug frá Jamaíka til New York. Hann játaði tilraun til fjárkúgunar í fyrra og var dæmdur í minnst 33 mánaða fangelsi. Nú á föstudaginn þyngdi dómari þó dóm Thomas, meðal annars vegna hótana hans gagnvart Lyndu Webster og þarf hann að sitja inni í tæp sex ár.

Rannsakendur FBI fundu aðra aðila sem Thomas hafði hringt í og sönnuðu að honum hefði tekist að svíkja minnst þrjú hundruð þúsund dali af minnst 30 manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×