Enski boltinn

Leikmenn Chelsea skammast sín mikið eftir rasskellinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Luiz og félagar í Chelsea í leiknum á sunnudaginn.
David Luiz og félagar í Chelsea í leiknum á sunnudaginn. Getty/Alex Livesey
Ensku fjölmiðlarnir keppast nú við að hlera herbúðir Chelsea eftir rassskellinn á móti Manchester City um helgina þar sem Chelsea „slapp“ með 6-0 tap.

Sky Sports News slær því upp að leikmenn Chelsea skammast sín mikið eftir þetta tap en City-liðið komst í 4-0 eftir aðeins 25 mínútna leik. Eftir það var leikurinn aðeins formsatriði en tapið gat þó verið stærra.







Mikið hefur verið rætt og skrifað um framtíð knattspyrnustjórans Maurizio Sarri eftir þetta mikla áfall á Ethiad og fréttamenn Sky Sports reyndu að kanna skoðun leikmanna liðsins á stjóranum.

Þar kom fram að samkomulag leikmanna og stjórans sé hvergi nærri því eins og slæmt og þegar Antonio Conte var stjóri liðsins á síðustu leiktíð.

Nokkrir leikmenn gerðu athugasemdir við leikskipulag Ítalans en meirihlutinn hefur enn trú á honum og hans aðferðum.

Liðsfundir hafa verið hjá Chelsea í vikunni eftir þennan rassskell í Manchester og fréttir þaðan eru að leikmennirnir séu staðráðnir að snúa þessu gengi við.

Chelsea er enn þá með í þremur bikarkeppnum og í baráttu við Manchester United og Arsenal um Meistaradeildarsæti.  Chelsea er aðeins einu stigi frá fjórða sætinu og staðan er því ekki slæm þótt spilamennskan að undanförnu sé langt frá því að vera sannfærandi.

Roman Abramovich er þekktur fyrir að reka stjóra sína enda hefur hann haft tólf knattspyrnustjóra síðan að hann eignaðist Chelsea árið 2003. Starf Maurizio Sarri er því alltaf í hættu en það lítur út fyrir að hann fái aðeins meiri tíma.

Bætist fleiri slæm úrslit og skellir við í framhaldinu þá er hætt við því að Abramovich fari að leita að stjóra númer þrettán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×