Innlent

Engin ein ákveðin einkenni hjá þeim sem stunda mansal

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Alda Hrönn Jóhannsdóttir yfirlögfræðingur hjá Lögreglunni á Suðurnesjum segir mikið um mansal hér á landi.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir yfirlögfræðingur hjá Lögreglunni á Suðurnesjum segir mikið um mansal hér á landi. Fréttablaðið/Ernir
Mansal er mikið hér á landi að sögn Öldu Hrannar Jóhannsdóttur yfirlögfræðings hjá Lögreglunni á Suðurnesjum. Mest sé hætta á mansali þar sem vöntun er á vinnuafli. Hún telur þörf á að færa löggjöf um mansal hér á landi nær evrópskum stöðlum þar sem það nær yfir víðtækari misnotkun á fólki.

Hún segir birtingamyndir mansals  margvíslegar og því geti verið erfitt að þekkja einkenni þess. Vinnuánauð og kynlífsþrælkun hafa færst í vöxt og eru gríðarlega arðbær glæpastarfsemi sem oft er stýrt af áhrifamiklum glæpasamtökum.

„Það er mikið um mansal hér á landi og um misnotkun á vinnuafli og fólki í krafti valds. Það er fullt af fólki sem kemur hingað í leit að betra lífi og er í viðkæmri stöðu þegar kemur að mansali,“ segir Alda.  

Alda segir marga stunda mansal og mikilvægt að eyða staðaímyndum þegar kemur að því.

„Það eru engin ein ákveðin einkenni á þeim sem stunda mansal. Þetta er alls konar fólk, úr öllum geirum,“ segir Alda. 

Hún segir hins vegar oft meiri hættu á mansali í störfum þar sem skortur er á vinnuafli. 

„Það er til að mynda í þjónustugeiranum, byggingargeiranum, við þrif og í öðrum láglaunastörfum. Þarna eru áhættuhóparnir,“ segir hún. 

Einkenni mansal eru af ýmsum toga og útvíkka þurfi viðmið um það hér á landi.

„Samkvæmt evrópskum stöðlum og skilgreiningum þá er mansal skilgreint í skipulagðri brotastarfsemi, betli, nauðungarvinnu og svo framvegis. Við þurfum að breyta og bæta viðmið hér á landi til samræmis við þetta,“ segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×