Innlent

Lækka laun bæjarfulltrúa um 15 prósent

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kársnes í Kópavogi.
Kársnes í Kópavogi. vísir/vilhelm
Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti einróma á fundi sínum í gær að lækka laun fyrir setu í bæjarstjórn um 15 prósent.

Það felur í sér lækkun um rúmlega 53 þúsund krónur á mánuði, launin fara úr 353 þúsund krónum í 300 þúsund. Í tilkynningu frá Kópavogsbæ er þó tekið fram að þóknun fyrir setu í öðrum nefndum og ráðum haldist óbreytt.

Þessi launalækkun er sögð vera í samræmi við yfirlýsingar bæjarstjóra Kópavogs, Ármanns Kr. Ólafssonar, sem fór fram á það við upphaf kjörtímabilsins að laun hans og bæjarfulltrúa yrðu lækkuð.

Launalækkun Ármanns tók gildi þann 12. júní í fyrra og nam hún 15 prósentum, sömu hlutfallslegu lækkun og í tilfelli bæjarfulltrúanna sem fyrr segir. Mánaðarlaun Ármanns lækkuðu hins vegar um 347 þúsund krónur á mánuði, fóru úr tæpum 2,5 milljónum í rúmlega 2,1 milljón. 


Tengdar fréttir

Vill lækka laun sín í 2,1 milljón eftir gagnrýni

Laun bæjarstjóra Kópavogs sættu harðri gagnrýni fyrir kosningar eftir að hafa hækkað um 32 prósent milli ára. Leggur nú til að laun hans og bæjarfulltrúa Kópavogs lækki um 15 prósent. Verður áfram næstlaunahæsti bæjarstjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×