Handbolti

KA/Þór vann í spennuleik í Kópavogi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Martha Hermannsdóttir
Martha Hermannsdóttir vísir/daníel
KA/Þór vann mikilvægan sigur á HK í Olísdeild kvenna og heldur sér í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Gestirnir að norðan byrjuðu leikinn mun betur og komust í 3-0 áður en Díana Kristín Sigmarsdóttir skoraði fyrsta mark HK á 7. mínútu leiksins.

Norðankonur héldu yfirhöndinni allan fyrri hálfleikinn, staðan var 14-16 þegar blásið var til leikhlés.

HK jafnaði metin í 21-21 þegar um tíu mínútur voru búnar af seinni hálfleik og komst svo yfir með marki frá Hafdísi Shizuka Iura. Heimakonur héldu yfirhöndinni þó ekki lengi, Martha Hermannsdóttir kom KA/Þór aftur yfir á 48. mínútu.

Eftir það var mikil spenna í leiknum en gestirnir foru þó með frumkvæðið. Díana Kristín jafnaði í 28-28 á 59. mínútu en það var Sólveig Lára Kristjánsdóttir sem var hetja leiksins fyrir gestina og tryggði þeim sigurinn á lokamínútunni.

Úrslitin þýða að KA/Þór jafnar ÍBV að stigum, bæði lið eru með 17 stig í 4.-5. sæti. Staðan breytist ekkert fyrir HK sem er enn í fallbaráttu með 7 stig í 7. sæti.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×