Innlent

Lækka laun bæjarfulltrúa

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Fréttablaðið/Anton Brink
Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti á fundi sínum á þriðjudag að lækka laun bæjarfulltrúa sinna um fimmtán prósent. Tillögu Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra Kópavogs, þess efnis má rekja til umfjöllunar Fréttablaðsins í fyrra um hvernig laun hans höfðu hækkað um 612 þúsund krónur milli ára.

Þó það hafi aðeins verið há laun bæjarstjórans og mikil hækkun þeirra milli ára sem vakti hörð viðbrögð og gagnrýni þá lagði bæjarstjórinn ekki aðeins  til að laun hans heldur allra bæjarfulltrúa að auki  yrðu lækkuð um 15 prósent í upphafi kjörtímabils.

Laun Ármanns Kr. lækkuðu þegar þann 12. júní síðastliðinn, úr 2,5 milljónum í 2,1 milljón króna á mánuði. Er hann eftir sem áður einn hæstlaunaði kjörni fulltrúi landsins og þótt víðar væri leitað.

Lækkunin sem bæjarstjórn samþykkti einróma á fundi sínum þýðir að föst  laun fulltrúanna lækka um 53 þúsund krónur á mánuði, fara úr 353.958 krónum í 300.864 krónur. Laun fyrir setu í öðrum nefndum og ráðum haldast óbreytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×