Erlent

Páfi skipar nýjan „camerlengo“

Atli Ísleifsson skrifar
Kardinálinn Kevin Farrell og Frans páfi á góðri stund.
Kardinálinn Kevin Farrell og Frans páfi á góðri stund. Getty
Frans páfi hefur skipað hinn írsk-bandaríska kardinála Kevin Farrell sem nýjan „camerlengo“. Camerlengo er ætlað er að stýra Páfagarði frá dauða eða afsögn páfa og þar til nýr páfi er kjörinn.

Hinn 71 árs gamli Farrell, sem fæddist á Írlandi og er háttsettasti Bandaríkjamaðurinn í Páfagarði, tekur við embættinu af Frakkanum Jean-Louis Tauran sem lést í júlí.

Camerlengo heldur utan um rekstur Páfagarðs á því tímabili sem kallast „sede vacante“ – autt sæti. Reglur og hefðir Páfagarðs kveða á um að camerlengo geti ekki gert neinar stórtækar breytingar á Páfagarði og geti ekki breytt kennisetningum kaþólsku kirkjunnar.

Láti páfi lífið er carmerlengo sá sem opinberlega úrskurðar hann látinn, vanalega með því að slá létt á höfuð páfa í þrígang með silfruðum hamri og með því að segja nafn páfans. Að því loknu innsiglar hann híbýli og skrifstofu páfans.

Frans páfi er 81 árs gamall og tók við embætti eftir afsögn Benedikts 16. árið 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×