Ótrúleg endurkoma Girona á Bernabeu og Ramos sá rautt

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Portu tryggir Girona ótrúlegan sigur
Portu tryggir Girona ótrúlegan sigur Vísir/Getty
Real Madrid fékk Girona í heimsókn í fyrsta leik dagsins í spænska boltanum og var fyrirfram búist við þægilegum sigri spænska stórveldisins þar sem Girona er búið að vera í frjálsu falli að undanförnu á meðan Real Madrid hafði unnið fimm deildarleiki í röð þegar kom að leiknum í dag.

Madridingar voru mun betri aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu verðskuldað í leikhléi með einu marki gegn engu eftir að Casemiro hafði skorað á 25.mínútu.

Eusebio, stjóri Girona, gerði tvær skiptingar í leikhléi og það var allt annað að sjá til gestanna í síðari hálfleik.

Á 65.mínútu jafnaði markahrókurinn Christian Stuani metin með marki úr vítaspyrnu og tíu mínútum síðar kom Portu gestunum svo yfir.

Undir lokin fékk Sergio Ramos, fyrirliði Real Madrid, að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt en fyrra spjaldið fékk hann þegar hann færði gestunum vítaspyrnuna með því að verja boltann með hendinni innan vítateigs.

Lokatölur 1-2 fyrir Girona en þetta var fyrsti sigur liðsins í deildinni síðan það lagði Espanyol þann 25.nóvember síðastliðinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira