Innlent

Þurftu að loka útiklefa og gufubaði Sundhallarinnar vegna skemmda

Birgir Olgeirsson skrifar
Sundhöll Reykjavíkur
Sundhöll Reykjavíkur Vísir/Anton Brink
Talsverðar skemmdir hafa orðið á Sundhöll Reykjavíkur undanfarið sem hefur orðið til þess að ekki er hægt að nýta alla þá aðstöðu sem þar er í boði. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram fyrirspurn í borgarráði í gær þar sem þeir vildu fá að vita hvenær viðgerðir hefjast á þessum skemmdum og aðstaðan opnar aftur. 

Meðal þess sem er lokað er útiklefinn í Sundhöllinni en í kuldakaflanum sem gekk yfir landið nýverið sprakk blöndunartæki sem varð til þess að lagnir í klefanum skemmdust. Er beðið eftir því hægt verði að hefja viðgerðir á útiklefanum svo baðgestir geti notað hann á ný. 

Einnig var spurt um rakaskemmdir sem eru taldar vera í nýja inni kvennaklefa Sundhallarinnar. Er talið að efni á skápum klefans hafi ekki verið nógu rakaþolið en ekki hefur þurft að loka klefanum vegna þessa. Hins vegar mun þurfa að loka honum um tíma þegar iðnaðarmenn vinna að lagfæringum en ekki liggur fyrir hvenær það verður. 

Þá hefur gufubaðið einnig verið lokað á meðan lagfæringum stendur vegna skemmda í klæðningu. Lagfæringar eru langt komnar en nú er beðið eftir nýrri hurð úr plexígleri sem á eftir að koma fyrir áður en hægt verður að opna gufubaðið á ný. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×