Innlent

"Vinnubrögðin finnast mér óásættanleg“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segist ekki hafa fengið boð á samtalsfund borgarfulltrúa og þingmanna sem fór fram í Höfða í dag.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segist ekki hafa fengið boð á samtalsfund borgarfulltrúa og þingmanna sem fór fram í Höfða í dag. Vísir/Vilhelm
Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, segist vera hissa á því að hún hafi ekki fengið boð á samtalsfund þingmanna og borgarfulltrúa sem fór fram í Höfða í dag. Ástæðan fyrir því að henni barst ekki boðið er sú að sendandi boðsins gerði innsláttarvillu þegar hann skrifaði netfangið hennar.

„Ég var bara svo hissa og ég átti ekki til eitt einasta aukatekið orð. Ég glennti upp augun. Öllum boðið nema mér,“ segir Inga í samtali við fréttastofu. Hún heyrði fyrst af fundinum frá Kolbrúnu Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins, sem var á leiðinni á fundinn.

Þú hefur þá ekki komist á fundinn í tæka tíð?

„Ég fékk ekkert boð og ég fer nú ekki að mæta sem boðflenna,“ segir Inga sem hefði viljað fá afsökunarbeiðni og að vandað hefði verið til verka. Hún segir það liggja fyrir að þegar bréfritari sendir tölvupóst á netfang sem er ekki til komi strax melding þess efnis frá postmaster.

„Ég er bara hissa á því að vinnubrögðin skuli ekki vera vandaðri en þetta. Það var ekkert ætlunin að skilja mig útundan. Ég er ekki að segja það, alls ekki, en mér finnst þetta bara ekki vönduð vinnubrögð. Það má alveg fylgja því eftir, þegar eru ekki fleiri á boðslistanum en þetta, að það sé ekki víst að allir hafi fengið þetta boð. Ég er nú að reyna að horfa fram hjá því að viðkomandi fylgist ekki með því hvort postmaster sendi til baka að þetta netfang sé ekki gilt.“

Inga vakti athygli á þessu á Facebook síðu sinni en Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifaði í ummælaþræði við færsluna að hún hefði fengið fundarboð eins og aðrir. Hann hafi farið yfir listann til öryggis. Á listanum sem hann birti má sjá innsláttarvillu þegar netfang Ingu hefur verið ritað því það vantaði bókstafinn „i“ í ingasaeland(hjá)althingi.is.   




Fleiri fréttir

Sjá meira


×