Erlent

Fimm létu lífið og margir særðust í skotárás í Illinois

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Fimm létu lífið í árásinni í Illinois í kvöld.
Fimm létu lífið í árásinni í Illinois í kvöld. Vísir/ap
Fimm létu lífið þegar karlmaður hóf skothríð í iðnaðarhúsnæði í Illinois í Bandaríkjunum kvöld. Fjórir lögreglumenn og nokkrir óbreyttir borgarar særðust í árásinni en endanlegur fjöldi særðra liggur ekki fyrir. Hinir slösuðu hafa verið fluttir á spítala.

Árásarmanninn hleypti af skotum í iðnaðarhverfi í borginni Aurora sem er um það bil í 65 kílómetra fjarlægð frá Chicago. Sérsveitin og bandaríska alríkislögreglan FBI tóku þátt í lögregluaðgerðinni.

Borgaryfirvöld í Aurora lýstu yfir hættuástandi laust eftir klukkan átta í gærkvöldi vegna byssumannsins sem þá gekk laus. Í tilkynningu frá borgaryfirvöldum kom fram að það hefði tekið lögreglu rúma klukkustund að handtaka árásarmanninn en Kristen Ziman, lögreglustjóri í Aurora, sagði á blaðamannafundi seinna um kvöldið að árásarmaðurinn hefði látist í átökunum. Þá greindi hún einnig frá því að nafn mannsins hafi verið Gary Martin sem var 45 ára.

Talið er að skotárásin hafi átt sér stað í fyrirtækinu Henry Pratt en heimildir breska ríkisútvarpsins BBC herma að árásarmaðurinn hafi verið starfsmaður.

Fréttin var uppfærð með nýjustu upplýsingum kl. 00:15

Mikill viðbúnaður á vettvangi. Sérsveit, alríkislögreglan og lögreglan í Aurora tóku þátt í aðgerðinni.Vísir/ap



Fleiri fréttir

Sjá meira


×