Viðskipti innlent

Íslendingar varist leyfislausa Eista

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Forstjóri Fjármáleftirlitsins segir mál sem þessi fátíð.
Forstjóri Fjármáleftirlitsins segir mál sem þessi fátíð. Fréttablaðið/Vilhelm
Erlent fjármálafyrirtæki hefur sett sig í samband við íslenska fjárfesta að undanförnum og boðið þeim að stunda viðskipti, án þess að hafa til þess tilskilin leyfi. Forstjóri Fjármáleftirlitsins segir mál sem þessi fátíð en að Íslendingar eigi að kynna sér vel þau fyrirtæki sem þeir hyggist eiga viðskipti við. Þá birti Fjármálaeftirlitið tilkynningu á síðu sinni um málið.  

Um er að ræða eistneska fyrirtækið Leadernet, sem Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir að hafi hvorki tilkynnt íslenska né breska fjármálaeftirlitinu að það sé með starfsleyfi eða hafi í hyggju bjóða viðskipti yfir landamæri.

„Ef þetta fyrirtæki væri með allt sitt á þurru þá hefði það gert það eins og mjög mörg fyrirtæki gera. Við erum með langan lista á vefsíðunni okkar yfir fyrirtæki sem hafa tilkynnt sig yfir landamærin og þá könnum við að það sé örugglega með starfsleyfi og slíkt og birtum lista yfir slík fyrirtæki því þetta er réttur innan evrópska efnahagssvæðisins,“ segir Unnur.

Ekki er vitað nákvæmlega á þessari stundu hvers konar viðskipti Leadernet hefur boðið íslendingum en Unnur segir að talið að um einhvers konar gjaldeyrisviðskipti sé að ræða og að svona mál reki ekki á fjörur eftirlitsins á hverjum degi.

„Kannski vegna þess að rétturinn er svo ríkur að bjóða viðskipti yfir landamæri innan evrópska efnahagssvæðisins og þá nota menn þær aðferðir sem búið er að móta þar til þess að hlutirnir séu í lagi og að þeir séu með viðskipti sem eru uppi á borðinu.“

Unnur hvetur Íslendinga til að vera á varðbergi gagnvart erlendum fyrirtækjum sem þessum.

„Þá er ljóst að þeir séu undir eftirliti og með sambærilegar reglur sem þeir þurfa að starfa eftir svo það sé öruggara að eiga viðskipti við slík fyrirtæki, til þess er þetta kerfi.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×