Enski boltinn

Ferguson stýrir United í afmælisleik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Endurkoma Ferguson mun án efa gleðja marka stuðningsmenn Manchester United.
Endurkoma Ferguson mun án efa gleðja marka stuðningsmenn Manchester United. Vísir/EPA
Alex Ferguson mun snúa aftur á hliðarlínuna á Old Trafford til að stýra Manchester United gegn Bayern Munchen í góðgerðaleik af því tilefni að 20 ár eru liðin frá mögnuðum úrslitaleik liðanna í Meistaradeildinni.

Þetta mun án efa gleðja stuðningsmenn Manchester United en Ferguson fékk heilablæðingu í vor og var vart hugað líf. Bati hans hefur verið góður og hann var mættur í stúkuna á Old Trafford í haust til að sjá United liðið spila.

Góðgerðaleikurinn gegn Bayern Munchen fer fram 26.maí næstkomandi en þetta kemur fram á heimasíðu BBC. Úrslitaleikurinn margfrægi er knattspyrnuáhugamönnum enn í fersku minni en United tryggði sér þá Evróputitilinn með tveimur mörkum á lokamínútum leiksins.

Leikmenn sem tóku þátt í leiknum fyrir 20 árum munu spila í leiknum og aldrei að vita hvort núverandi stjóri United, Ole Gunnar Solskjær, verði með en hann skoraði sigurmarkið í leiknum árið 1999.

Allur ágóði af leiknum rennur til Manchester United-samtakanna sem hafa látið gott af sér leiða í góðgerðastarfsemi í Manchester. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×