Enski boltinn

Töp hjá Villa og Reading

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jón Daði kom inn á í dag
Jón Daði kom inn á í dag vísir/getty
Íslendingaliðin Aston Villa og Reading töpuðu bæði leikjum sínum í ensku B-deildinni í fótbolta í dag.

Reading átti martraðar fyrri hálfleik gegn Sheffield United. Kieron Freeman kom heimamönnum í Sheffield yfir strax á fyrstu mínútu leiksins og Gary Madine tvöfaldaði forystuna á 16. mínútu.

Madine var svo mættur aftur rétt undir lok fyrri hálfleiksins og skoraði eftir sendingu Marvin Johnson. Staðan því 3-0 fyrir Sheffield í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var rétt ný byrjaður þegar John Fleck skoraði fjórða mark Sheffield. Jón Daði Böðvarsson byrjaði leikinn á bekknum en hann var settur inn í hálfleik. Sunnlenski framherjinn náði þó ekki að skora fyrir lið sitt, né heldur liðsfélagar hans, og var lokastaðan 4-0 sigur Sheffield.

Í Birmingham var Birki Bjarnason hvergi að sjá í leikmannahóp Aston Villa sem tók á móti West Bromwich Albion.

Fyrsta mark leiksins kom frá Hal Robson-Kanu undir lok fyrri hálfleiks, hann skoraði með skalla eftir fyrigjöf Mason Holgate. Jay Rodriguez bætti við öðru marki gestanna á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Ekkert mark kom í seinni hálfleik og lauk leik með 2-0 sigri West Brom.

Norwich valtaði yfir Bolton 4-0 og fór aftur á topp deildarinnar. Norwich er með 63 stig og Sheffield United 61, jafn mörg og Leeds sem á þó leik til góða á bæði lið. Villa á enn möguleika á að koma sér í umspilssæti en er þó í hættu á að missa af lestinni, liðið er í 10. sæti, sjö stigum frá Middlesbrough í sjötta sætinu.

Úrslit dagsins:

Rotherham – Sheffield Wednesday 2-2

Aston Villa – West Brom 0-2

Bolton – Norwich 0-4

Ipswich – Stoke 1-1

Preston – Nottingham Forest 0-0

Sheffield United – Reading 4-0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×