Fótbolti

Fertugur á skotskónum í Bundesligunni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Flest er fertugum fært
Flest er fertugum fært vísir/getty
Perúmaðurinn Claudio Pizarro heldur áfram að skrá sig á spjöld sögunnar í þýska boltanum en þessi mikli markahrókur var á skotskónum í gær þegar hann gerði eina mark Werder Bremen í 1-1 jafntefli gegn Hertha Berlin.

Pizarro varð þar með elsti leikmaðurinn sem skorað hefur mark í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta en hann var hvorki meira né minna en 40 ára og 136 daga gamall í gær.

Hann bætti met Miroslav Votava sem gerði garðinn frægan með Dortmund og Werder Bremen á árum áður en met hans hafði staðið frá árinu 1996 en þá skoraði Votava mark þegar hann var 40 ára og 121 daga gamall.

Pizarro er markahæstur erlendra leikmanna í Bundesligunni frá upphafi og sá fimmti markahæsti í sögu deildarinnar en hann hefur skorað 194 mörk fyrir Werder, FC Bayern og Köln. Annar erlendur leikmaður andar þó í hálsmálið á honum því Robert Lewandowski er með 193 mörk í Bundesligunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×