Enski boltinn

Palace og Swansea komin áfram

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikmenn Palace fagna
Leikmenn Palace fagna vísir/getty
Crystal Palace og Swansea eru komin áfram í átta liða úrslit ensku bikarkeppninnar í fótbolta.

C-deildarlið Doncaster tók á móti úrvalsdeildarliði Crystal Palace. Gestirnir byrjuðu leikinn af krafti og komust yfir eftir sjö mínútna leik.

Luka Milivojevic vann boltann og fann Jeffrey Schlupp sem kláraði færið.

Palace var með öll völd á vellinum, eins og búast mátti við, og hefði átt að fá vítaspyrnu undir lok fyrri hálfeiks þegar Paul Downing fékk boltann í hendina.

Áður en hálfeikurinn var úti náði Palace þó í annað mark þegar Max Meyer skoraði eftir sendingu Andros Townsend.

Í seinni hálfleik reyndu heimamenn hvað þeir gátu en þeir fundu ekki markið og eru því úr leik í bikarnum.

Í Wales mættust B-deildarliðn Swansea og Brentford. Gestirnir frá Brentford komust yfir eftir um hálftíma þegar Ollie Watkins skoraði eftir skyndisókn. Þeir komu boltanum svo aftur í netið en mark Neal Maupay var dæmt af vegna rangstöðu.

Svanirnir ógnuðu ekki mikið sóknarlega í fyrri hálfleik en þeir náðu að jafna leikinn snemma í þeim seinni. Bersant Celina tók aukaspyrnu í átt að marki, boltinn fór í stöngina og þaðan í bakið á Luke Daniels markverði og í markið.

Heimamenn komust svo yfir með skyndisókn á 53. mínútu þar sem enginn leikmaður Brentford var inni á eigin vallarhelmingi og Daniel James þarf aðeins að hafa betur gegn markmanninum.

James var við það að komast aftur einn í gegn þegar Ezri Konsa tók hann niður og fékk að líta beint rautt spjald.

Swansea var ekki lengi að nýta sér liðsmuninn og skoraði Bersant Celina þriðja mark heimamanna. Undir lokin gulltryggði George Byers svo 4-1 sigur Swansea.

Nú er aðeins eitt laust sæti eftir í 8-liða úrslitunum og ræðst annað kvöld hvort það verður Chelsea eða Manchester United sem tekur það.

Liðin sem eru komin áfram eru Wolves, Millwall, Crystal Palce, Manchester City, Swansea, Watford og Brighton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×