Erlent

Trump ekki skemmt eftir nýjasta atriði SNL

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Alec Baldwin í hlutverki forseta Bandaríkjanna.
Alec Baldwin í hlutverki forseta Bandaríkjanna. Getty/Will Heath
Svo virðist sem að Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hafi ekki skemmt sér yfir nýjasta opnunaratriði bandaríska grínþáttarins Saturday Night Live sem sýndur var á laugardaginn.

Í atriðinu sneri Alec Baldwin aftur í hlutverki forsetans og gerði hann miskunnarlaust grín að blaðamannafundi Trump í síðustu viku. Þar tilkynnti forsetinn að hann myndi lýsa yfir neyðarástandi til þess að fjármagna hinn umdeilda landamæramúr eða girðingu á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Sagði Baldwin, í hlutverki Trump, að ástæðan fyrir byggingu múrsins eða girðingarinnar væri einfaldlega sú að honum langað til þess að byggja múrinn, því hafi hann skapað neyðarástand til þess að fá fjármagnið.

Trump brást ókvæða við atriðinu og greip til varna á Twitter, líkt og venja er orðin.

„Ekkert fyndið við þreytta Saturday NIght Live á Falsfrétta NBC. Spurningin er, hvernig komast sjónvarpsstöðvarnar upp með þessar árásir á Repúblikana án afleiðinga? Það sama gildir um marga aðra þætti? Mjög ósanngjarnt og einhver ætti að skoða þetta. Þetta er hið alvöru SAMRÁÐ!“ skrifaði Trump á Twitter.

Atriði SNL má sjá hér fyrir neðan og þar fyrir neðan má sjá myndband frá Washington Post, þar sem búið er að bera saman atriði SNL við blaðamannafund Trump.


Tengdar fréttir

Svona sér SNL samningaviðræður Trump við þingið fyrir sér

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur reynst grínþættinum Saturday Night Live endalaus uppspretta gríns á undanförnum árum. Engin breyting varð á því í fyrsta þætti ársins sem sýndur var í Bandaríkjunum á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×