Enski boltinn

Zola: Sarri í sömu vandræðum og Pep var í

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maurizio Sarri og Pep Guardiola.
Maurizio Sarri og Pep Guardiola. Getty/Alex Livesey
Gianfranco Zola sér margt svipað með byrjun Maurizio Sarri hjá Chelsea og byrjun Pep Guardiola hjá Manchester City.

Gianfranco Zola er aðstoðarmaður Maurizio Sarri hjá Chelsea en það hefur gengið illa hjá Chelsea-liðinu að undanförnu og liðið er eflaust enn að jafna sig eftir rassskellinn á móti Manchester City á dögunum.

Chelsea er samt enn með í þremur bikarkeppnum og mætir Manchester United á heimavelli í kvöld í sextán liða úrslitum enska bikarsins . Síðan tekur við leikur á móti Malmö í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn og svo úrslitaleikur enska deildabikarsins á móti Manchester City um næstu helgi.

Maurizio Sarri ætlar ekki að gefa neitt eftir í því að láta Chelsea liðið spila „Sarriboltann“ þótt að hann hafi boðið hættunni heim í 6-0 tapi á móti Manchester City.

„Hvernig veist þú að við séum ekki að breyta neinu? Við erum að aðlaga okkur á nokkrum stöðum en við breytum því ekkert hvert við stefnum. Stefnan okkar er alltaf sú sama,“ sagði Gianfranco Zola.





„Fyrir tveimur árum voru þið örugglega að spyrja Pep Guardiola sömu spurninganna. Ég man eftir að þið spurðuð hann hvort hann ætlaði að halda áfram að spila boltanum úr vörninni,“ sagði Zola.

„Ég man líka að Pep svaraði: Þetta er ekki til umræðu og þetta hluti af mínum leikstíl. Ég veit að við erum að ganga í gegnum vandræði núna en ég ætla ekki að breyta þessu,“ sagði Gianfranco Zola og rifjaði upp fyrsta tímabil Guardiola í enska boltanum.

Zola segir að Sarri komi alltaf hreint fram og að hann sé mjög heiðarlegur í sinni nálgun. Þetta á við líka í samskiptum við blaðamann þar sem hann segir stundum aðeins „of mikið“ frá hjartanu.

„Kannski hefur Pep líka aðlagast enska boltanum. Hans lið hefur bætt sig mikið og þá sérstaklega af því að hann fékk liðið sitt til að verjast betur, pressa betur og spila betri sóknir. Hann hefur vissulega aðlagast eitthvað en hann hefur ekki breytt sýn sinni á fótboltann,“ sagði Zola.

„Ég sé okkur vera á sama stað núna. Það eru margar spurningar og efasemdir um það sem við erum að gera en við erum að reyna að aðlaga okkur að deildinni og gerum einhverjar breytingar. Við breytum hins vegar ekki sýn okkar á fótboltann og skoðun okkar hvað sé gott fyrir klúbbinn. Annars værum við ekki neitt,“ sagði Zola.

Manchester United mætir Chelsea á Stamford Bridge í London í kvöld í sextán liða úrslitum enska bikarsins. Leikurinn hefst klukkan 19.30 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×