Innlent

„Treystum því að ráðherra muni fara að lögum“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns.
Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns. Vísir/Vilhelm
Það mun hafa í för með sér verulegt fjárhagslegt tjón sem sótt verður af fullum þunga í ríkissjóð ef ráðherra staðfestir skyndifriðun Víkurgarðs að sögn framkvæmdastjóra Lindarvatns, sem vinnur að byggingu hótels á Landsímareitnum. Ákvörðun ráðherra mun liggja fyrir síðar í dag.



Hluti garðsins, Fógetagarðurinn svokallaði, er þegar friðlýstur en Minjastofnun ákvað í janúar að skyndifriða hluta Víkurgarðs sem er innan þess reits þar sem hótelið á að rísa. Það er í höndum Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, að taka afstöðu til skyndifriðunarinnar og mun ákvörðun hennar liggja fyrir síðar í dag. Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns, segir ljóst að það myndi hafa verulegt tjón í för með sér ef ráðherra staðfestir friðlýsinguna.

„Eins og komið hefur fram áður mun það valda okkur verulegu fjárhagslegu tjóni og bara í samræmi við minjalög og eins og komið hefur fram áður þá verður það sótt af fullum þunga í ríkissjóð,“ segir Jóhannes. „Þá þurfum við bara að endurmeta stöðuna, við þurfum auðvitað að gera verulegar breytingar á hönnun verkefnisins, við þurfum síðan bara að kanna hver okkar réttarstaða er en ég býst þá bara við að málinu yrði stefnt fyrir dómstóla og myndi þá bara hafa sinn gang þar.“

Hann kveðst þó binda vonir við að ákvörðun ráðherra verði á annan veg. „Þá hefur borgarlögmaður til dæmis bent á að ákvörðunin yrði ólögmæt og ekki í samræmi við minjalög. Þannig að við bara treystum því að ráðherra muni fara að lögum, það er það eina sem við getum í sjálfu sér vonað,“ segir Jóhannes. 

Lindarvatn lét gera könnun meðal landsmanna um hvort þeir kysu frekar að styðja við uppbyggingaráform í samræmi við deiliskipulagstillögu Reykjavíkurborgar eða tillögu minjastofnunar um friðlýsingu. Jóhannes segir niðurstöðurnar hafa verið afdráttarlausar. „Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna styðja frekar áform í samræmi við deiliskipulag Reykjavíkurborgar og 85% Rekvíkinga raunar, þannig að vilji almennings er nokkuð skýr.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×