Enski boltinn

Sér nú „sjálfstraust og hroka“ í liði United sem hann bjóst ekki við að sjá

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba og Romelu Lukaku fagna marki þess fyrrnefnda á Brúnni í gærkvöldi.
Paul Pogba og Romelu Lukaku fagna marki þess fyrrnefnda á Brúnni í gærkvöldi. Getty/Michael Regan
Gamli Manchester United maðurinn Phil Neville þekkti sitt félag aftur í sigurleiknum á móti Chelsea á Stamford Bridge í gærkvöldi. United liðið vann leikinn 2-0 og komst með því í átta liða úrslit enska bikarsins.

„Þetta er eins og að horfa á gömlu Manchester United liðin,“ sagði Phil Neville í þættinum Match of the day á BBC eftir leikinn. Manchester United kom sterkt til baka eftir fyrsta tap sitt undir stjórn Norðmannsins Ole Gunnar Solskjær. United hefur nú unnið ellefu af þrettán leikjum undir hans stjórn og aðeins tapað einu sinni.

„Ole hefur fengið þá til að spila með sjálfstrausti og trú á verkefnið. Þetta er ótrúlegt að sjá,“ sagði Neville.





„Hefðir þú spurt mig fyrir dálitlu síðan hvort þeir gætu hreinlega spilað með sjálfstrausti og hroka þá hefði ég sagt nei. En núna eru þeir að því,“ sagði Neville.

„Ef við hugsum til baka um hvernig liðið var að spila undir stjórn Jose Mourinho þá voru þeir Anthony Martial og Marcus Rashford að spila sem hægri og vinstri bakvörður,“ sagði Neville.

Það er ekki aðeins frábær árangur undir stjórn Solskjær sem hefur heillað flesta stuðningsmenn United upp úr skónum heldur er liðið aftur farið að spila skemmtilegan fótbolta. Hundleiðinlegi dútl fótboltinn undir stjórn Mourinho heyrir nú sögunni til.

Phil Neville er á því að Ole Gunnar Solskjær eigi að vera fastráðinn sem knattspyrnustjóri Manchester en bara ekki alveg strax.

„Ég myndi ekki láta hann fá það strax. Höldum leikmönnunum hungruðum og látum þá berjast fyrir hann og síðan má hann fá starfið,“ sagði Phil Neville.

Næsta á dagskrá hjá Manchester United er leikur á móti erkifjendunum í Liverpool á Old Trafford á sunnudaginn kemur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×