Sport

Indónesía vill halda Ólympíuleikana árið 2032

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íþróttafólk frá Indónesíu fagnar á lokahátið Asíuleikanna 2018 sem fóru fram í Indónesíu og heppnuðust vel.
Íþróttafólk frá Indónesíu fagnar á lokahátið Asíuleikanna 2018 sem fóru fram í Indónesíu og heppnuðust vel. Vísir/Getty
Sumarólympíuleikarnir eftir þrettán ár gætu farið fram í Indónesíu eftir að Indónesar ákváðu að leggja inn framboð til Alþjóðaólympíunefndarinnar.

Indónesía hélt Asíuleikana á síðasta ári og heppnuðust þeir það vel að landið telur sig nú geta haldið Ólympíuleikana árið 2032.

Sendiherra Indónesíu í Sviss afhendi Alþjóðaólympíunefndinni framboðsbréf frá Joko Widodo, forseta Indónesíu, í síðustu viku.





Alþjóðaólympíunefndin mun ekki ákveða það fyrr en árið 2025 hvar leikarnir fara fram árið 2032 en búist er við því að bæði Indland og sameiginlegt framboð kóresku ríkjanna tveggja muni keppa um hnossið við Indónesíu.

Sumarólympíuleikarnir fara fram í Tókýó í Japan á næsta ári en Asíuríkin Kína (Peking 2008) og Suður-Kórea (Seoul 1988) hafa einnig haldið leikana.

Þetta verður í annað skiptið sem leikarnir fara fram í Tókýó og endi leikarnir í Indónesíu eftir þrettán ár yrði það því í fimmta sinn sem Sumarólympíuleikarnir fara fram í Asíu. Þar sem samkeppnin kemur frá öðrum Asíuríkjum virðist reyndar fátt koma í veg fyrir það.

Eftir ÓL 2020 í Tókýó fara næstu leikar á eftir fram í París í Frakklandi árið 2024 og í Los Angeles í Bandaríkjunum árið 2028.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×